Navigation

Atvinna er okkar mál

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ætíð haft forystu um að standa með atvinnulífi og verðmætasköpun í Hafnarfirði. Þessu fylgja sjálfstæðismenn eftir í bæjarstjórnarkosningunum 2014.

Tækifæri Hafnarfjarðar í atvinnumálum felast í margvíslegri sérstöðu bæjarins meðal sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins:

 • Fjölbreytni í atvinnulífi, sem byggir á langri sögu og traustum grunni.
 • Greiðum samgöngum, á landi, við hafið og við alþjóðaflugvöll.
 • Náttúru, sem býður flest það sem gerir Ísland einstakt og laðar að ferðamenn.
 • Auðlindum, sem mikilvægt er að nýta af hófsemi og tillitssemi við náttúru og komandi kynslóðir.
 • Mannauði, framtakssömum og dugandi Hafnfirðingum með menntun og reynslu til fjölbreytilegra starfa og nýsköpunar í atvinnulífi.

Að loknum bæjarstjórnarkosningum munu sjálfstæðismenn beita sér fyrir að greiða götu nýrra fyrirtækja og atvinnusprota, jafnt sem þeirra fyrirtækja sem þegar starfa í bænum, til þess að efla atvinnulíf og verðmætasköpun í Hafnarfirði.

Sérstök áhersla verður strax lögð á eftirfarandi átaksverkefni:

Atvinnuþróun í Hafnarfirði

 • Kortlögð þau tækifæri sem Hafnarfjörður býr að í atvinnumálum (lóðir, fyrirtækjaklasar o.fl.)
 • Nýjar leiðir farnar við sölu, verðlagningu og skilmála um lóðir, til þess að koma á móts við þær mismunandi þarfir sem fyrirtæki hafa.
 • Stjórnsýsla Hafnarfjarðarbæjar verður endurskoðuð með það að markmiði að auðvelda og styrkja samskipti fyrirtækja við bæjarfélagið.
 • Átaksverkefni í atvinnuþróun, í hefðbundnum atvinnugreinum sem og vaxandi greinum s.s. ferðaþjónustu, verða í auknum mæli falin fagfólki.

Höfnin okkar

 • Höfn í hjarta bæjarins gefur Hafnarfirði einstaka sérstöðu og tækifæri.
 • Sviðsmyndir fyrir framtíð Hafnarfjarðarhafnar verða þróaðar og skipulag innan hafnarinnar og í nágrenni hennar mun taka mið af þeirri vinnu.
 • Efnt verður til samkeppni um framtíðarsýn smábátahafnarinnar, byggingareiti við Suðurhöfn þar sem áhersla verði lögð á verslun, veitingarekstur og afþreyingu, svo og hafnsækna starfsemi.