Navigation

Skjól fjölskyldunnar

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á valfrelsi í húsnæðismálum og að bæjarfélagið bjóði fjölbreytni í byggingarsvæðum, byggingarkostum og skipulagi, sem tryggi húsnæði sem hentar öllum. Staðinn verði vörður um grunnþjónustuna, vel verði búið að þeim sem höllum fæti standa, jafnframt því að hver einstaklingur verði styrktur til sjálfsbjargar og virkrar þátttöku í samfélaginu. Þessu fylgja sjálfstæðismenn eftir í bæjarstjórnarkosningunum 2014.

Meginmarkmið húsnæðisstefnu er að tryggja valkosti og húsnæðisöryggi. Mikilvægt er að jafnvægi myndist á fasteignamarkaði í bænum og tryggt sé nægilegt framboð af húsnæði eftir þörfum hvers og eins:

 • Fjölbreytt val, fyrir alla aldurshópa, hvort sem fólk vill búa í litlu eða stóru húsnæði, eiga, leigja eða velja sér aðra búsetukosti.
 • Víða um bæinn eru svæði sem má nota fyrir nýjar íbúðir og hús, þannig að við tryggjum fjölbreytni í hverfum bæjarins og nýtum þá þjónustu sem þegar er til staðar.
 • Tryggja þarf framboð á lóðum fyrir hagkvæmar íbúðir, jafnt til leigu og sölu. Sérstaklega  verði litið til uppbyggingar leiguíbúða á frjálsum markaði í samráði og samvinnu við hagsmunaaðila.
 • Félagslega íbúðakerfið verði endurskipulagt, rekstur Fasteignafélags Hafnarfjarðar verður endurskoðaður og stefnt að fjölgun íbúða um 50 á komandi kjörtímabili. Íbúum í félagslega kerfinu verði gert kleift að eignast búseturétt í húsnæði sínu að uppfylltum skilyrðum.

Málefni fatlaðra fluttust til sveitarfélagsins á kjörtímabilinu sem nú er að ljúka. Meta þarf hvort tilflutnngurinn mælist vel fyrir hjá notendum og ennfremur stöðu NPA (notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar) og hvernig til hefur tekist með þá samninga sem gerðir hafa verið um notendastýrða persónulega aðstoð:

 • Fé fylgi þörf í málefnum fatlaðra og áhersla lögð á virkniúrræði. Fólk á að hafa frelsi til að velja hver sinni því og með hvaða hætti, eftir því sem við verður komið. Aðgengismál fatlaðra í sveitarfélaginu verði sérstaklega skoðuð.
 • Tilraunaverkefni NPA verði haldið áfram, en fjármagn frá ríki verður að fylgja þörfinni.

Búum eldri borgurum áhyggjulaust ævikvöld og mætum þeim með viðunandi stuðningi og aðstoð þegar á þarf að halda:

 • Nýtt hjúkrunarheimili verði byggt á Sólvangsreitnum og svæðið þannig fest í sessi sem miðstöð öldrunarþjónustu í Hafnarfirði, þar sem unnt verði að fjölga hjúkrunarrýmum.
 •  Áfram verði gert ráð fyrir byggingu hjúkrunarheimilis í Skarðshlíð í framtíðinni.
 • Biðlistum eftir dag- og heimaþjónustu verði útrýmt og þjónustuframboð aukið til samræmis við þörfina.
 • Fjölbreytileiki í félagsstarfi verði tryggður og auknir möguleikar á líkamsrækt eldri borgara.
 • Heilsugæsla á Völlum er orðin brýn í ört vaxandi hverfi, þar sem ungt fólk og börn eru stór hluti íbúa.