Navigation

Heilsubærinn Hafnarfjörður

Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft forystu um að kynna nýjar hugmyndir sem snúa að bættum lífsstíl og má þar minna á forystu flokksins í umhverfismálum á Íslandi löngu áður en þau urðu á allra vörum. Þessu fylgja sjálfstæðismenn eftir í bæjarstjórnarkosningunum 2014.

Með því að gangast fyrir átakinu „Heilsubærinn Hafnarfjörður“ er byggt á þeim tækifærum og þeirri sérstöðu sem Hafnarfjörður býr að:

 • Útivistarperlur til hreyfingar og heilsubótar, hvort sem er í upplandi bæjarins, í landi bæjarins á Reykjanesskaga eða við ströndina.
 • Ræktun í garðinum heima – Hafnarfirði, hvort sem bæjarbúar búa sér skjólsæla garða til matjurtaræktunar eða bærinn bjóði Hafnfirðingum landsvæði til ræktunar í landi sínu.
 • Öflug íþróttafélög bæjarins, sem styðja þátttöku ungmenna og almennings í íþróttum og heilsurækt.

Hafnarfjarðarbær verði til fyrirmyndar og í fararbroddi í lýðheilsumálum. Hafnarfjörður verði heilsubær sem vinni að því að efla heilsuvitund í bæjarfélaginu. Sett verði skýr áætlun og mælanleg markmið við innleiðingu heilsustefnu bæjarins.

Sérstök áhersla verður strax lögð á eftirfarandi átaksverkefni:

 • Hrundið verði af stað átaki bæjarfélagsins í forvörnum og heilsueflingu sem nái til íbúa, fyrirtækja, félaga og stofnana.  Þau verði hvött til að setja sér markmið og áætlanir varðandi heilsu og heilbrigðan lífsstíl.
 • Skólar bæjarins verði hvattir sérstaklega til að útfæra heilsustefnu þar sem hugað verði að andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan barna í samstarfi við foreldra.
 • Almenn hvatning til barna og fullorðinna um að auka hreyfingu sína í daglegu lífi.
 • Hugað verði sérstaklega að aðstöðu og tækifærum til heilsueflingar eldri borgara.
 • Aðstöðu og tækifærum til útivistar verði fjölgað og hugað sérstaklega að slíkum möguleikum í skipulagsgerð, við fegrun og uppbyggingu hverfa.
 • Farið verði yfir mataræði og næringu í mötuneytum skóla og stofnana bæjarins með lýðheilsumarkmið í huga. Hvatt verði til notkunar á fersku hráefni í hvívetna og börn í auknum mæli frædd um mikilvægi næringarríks mataræðis. Veittar verði viðurkenningar þeim stofnunum sem skara fram úr á þessu sviði.
 • Fjölgað verði matjurtagörðum í hverfum bæjarins og gert ráð fyrir slíkum reitum í skipulagi. Stutt verði við ræktun krydd- og matjurta í leik- og grunnskólum, jafnt innandyra sem utan.
 • Íþróttafélög verði hvött til að auka framboð á hollum matvælum í starfi sínu og á íþróttamótum. Félögin auki áherslu á fræðslu um mataræði á meðal iðkenda.
 • Möguleikar í heilsutengdri ferðaþjónustu í Hafnarfirði verði nýttir, með áherslu m.a. á öflugt íþróttastarf, einstaka nátturu og heilnæmt vatn í landi bæjarins.