Navigation

Hvert barn skiptir máli

Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft forystu um að standa með sjálfstæði skóla og skólafólks í störfum sínum og sjálfstæðismenn hafa haft forgöngu um að styðja fjölbreytni í skólastarfi. Þessu fylgja sjálfstæðismenn eftir í bæjarstjórnarkosningunum 2014.

Hafnarfjörður er skólabær. Í sterkum innviðum bæjarins í fræðslumálum felast fjölmörg tækifæri:

 • Leikskólar, þar sem þróunarstarf er öflugt og ný stefna í leikskólastarfi, Hjallastefnan, varð til.
 • Grunnskólar, vaxandi skólar í bæjarfélagi ungu kynslóðarinnar.
 • Tónlistarskólinn og aðrar stofnanir sem sinna listgreinum og framhaldsmenntun, sem styðja blómlegt starf menningar og nýsköpunar í hafnfirsku atvinnulífi.
 • Flensborgarskólinn, í hópi elstu og virtustu framhaldsskóla landsins – starfræktur af ríkinu en með mikilvæg tengsl í skólastarf Hafnarfjarðar.
 • Iðnskólinn, eini framhaldsskóli landsins sem starfar undir heiti iðnskóla – mikilvæg tenging ungs fólks við atvinnulíf á grunni iðnaðar í Hafnarfirði.

Að loknum bæjarstjórnarkosningum munu sjálfstæðismenn beita sér fyrir átaki í skólastarfi, gæðum menntunar og undirbúnings ungra Hafnfirðinga fyrir tækifæri 21. aldarinnar.

Áhersla verður lögð á eftirfarandi:

 • Dregið verði úr miðstýringu og fjárhagslegt sjálfstæði skólanna aukið.
 • Fjölbreytni og aukið valfrelsi í hafnfirsku skólastarfi verði tryggt.
 • Skólarnir verði hvattir til þróunar- og nýsköpunarstarfs, sérhæfingar og nýjunga í valgreinum og námshraða.
 • Átak verði gert í tæknivæðingu grunn- og leikskóla til að nýta betur kosti upplýsingatækninnar við kennslu. Með rafrænum kennsluháttum felast miklir möguleikar til að koma betur til móts við mismunandi þarfir hvers og eins.
 • Hverfaskipting skóla verði afnumin.
 • Kennarar og fagfólk fái aukinn stuðning í starfi sínu og stutt við frumkvæði þeirra og sjálfstæði.
 • Stefna ber að meiri samþættingu milli skólastiga, bæði leik- og grunnskóla og einnig við framhaldsskóla. Leitað verði samstarfs við atvinnulíf í Hafnarfirði um stuðning við eflingu tækni- og verknáms í skólum bæjarins.
 • Unnið skal að því að nemendur á lokaári grunnskóla geti á ný sótt áfanga í framhaldsskólum.  Þannig er stuðlað að styttingu náms heildrænt til hagsbóta fyrir allt þjóðfélagið.
 • Sérstaklega verði skoðað brottfall ungmenna úr framhaldsskóla og með hvaða hætti unnt er að sporna við því.
 • Gjaldskrár leikskóla verði endurskoðaðar og breytt til samræmis við gjaldskrár nágrannasveitarfélaganna.
 • Sumarlokanir í leikskólum verði afnumdar.
 • Dagforeldrakerfið verði styrkt og samráð við fræðslusvið aukið.