Áramótakveðja frá formanni Fram

Kæru vinir og félagar.

Nú er viðburðaríkt ár að baki hjá okkur í Sjálfstæðisfélaginu Fram í Hafnarfirði og sérstaklega ánægjulegt að við hafnfirskir Sjálfstæðismenn höfum loksins eignast þingmann á ný.

Á líðandi ári fagnaði Sjálfstæðisflokkurinn 95 ára afmæli, en hann varð til við sameiningu Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins árið 1929. Flokkurinn hefur frá stofnun sameinað kjósendur á hægri væng stjórnmálanna og verið hryggjarstykkið í íslenskum stjórnmálum.

Flokkurinn hefur frá upphafi leitt Ísland á braut velsældar, lýðræðis og þátttöku í samfélagi frjálsra þjóða, með því að vinna að framgangi Sjálfstæðisstefnunnar. Hún er lífsviðhorf mannúðar, frelsis og samkenndar þar sem öflugt og ábyrgt atvinnulíf er grundvöllur blómlegs efnahags í opnu samfélagi. Gæfa okkar liggur í Sjálfstæðisstefnunni og fólkinu í flokknum.

Mikill þingstyrkur Sjálfstæðisflokksins í gegnum tíðina hefur tryggt honum aðild að ríkisstjórnum og Sjálfstæðisstefnunni brautargengi til farsældar fyrir land og þjóð. Lengst af fékk Sjálfsætisflokkurinn um eða yfir 40% fylgi í alþingiskosningum. Fylgið fór einu sinni undir 30% á síðustu öld. Frá árinu 2009 hefur fylgið hins vegar stöðugt legið undir því marki, þar til nú í haust, þegar Sjálfstæðisflokkurinn fór í fyrsta skipti undir 20%.

Niðurstöðurnar í nóvember voru áfall, þótt þær hafi að nokkru verið fyrirséðar. Ástæður þessa slaka árangurs eru margar og fjölbreyttar. Illa hefur gengið að miðla því til kjósenda að atvinnulíf og nýsköpun blómstra nú sem aldrei fyrr, að almenn lífskjör hér eru með því besta sem þekkist í veröldinni eða hve kaupmáttur hefur vaxið meira hér en annars staðar.

Nú ber svo við, að þrátt fyrir góðan árangur, er Sjálfstæðisflokkurinn ekki lengur sá sem kjósendur treysta best fyrir stjórn efnahagsmála og bjartri framtíð þjóðarinnar. Forystunni hefur heldur ekki tekist að halda saman fylginu frá miðju til hægri og Viðreisn, Miðflokkurinn og aðrir náð eyrum og atkvæðum þeirra sem áður kusu Sjálfstæðisflokkinn.Vissulega hafa tímarnir breyst og aðrir flokkar með góðum árangri fengið ýmislegt að láni úr Sjálfstæðisstefnunni.

En á sama tíma þrengja verðbólga, vextir og erfiður húsnæðismarkaður að frelsi og fjárhagslegu sjálfstæði fólks og fyrirtækja. Þá hefur stjórnmálakerfið verið ríkisvætt á okkar vakt með milljarða styrkjum til flokkanna.Nú hefur nýlega tekið við völdum ríkisstjórn Samfylkingarinnar, Flokks fólksins og Viðreisnar. Allir þessir flokkar hafa fengið að láni hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins í ýmsum málaflokkum og tekið frá honum fylgi. Sá síðastnefndi þó mest.

Eins og venja er undir vinstri stjórnum má búast við því að fljótlega fari að glitta í óeiningu, skattahækkanir og efnahagslegt óveður. Sagan sýnir okkur að vinstri stjórnir lifa sjaldnast lengi, þær missa tökin hratt og tapa stuðningi þjóðarinnar. Aldrei hefur vinstri stjórn verið endurkjörin til að sitja í tvö kjörtímabil í röð.

Það er því mikilvægt að sjálfstæðisfólk um allt land verði tilbúið í kosningar þegar kallið kemur. Það kann að verða áður en kjörtímabilið er úti. Þá þarf Sjálfstæðisflokkurinn að tefla fram ferskri og öflugri forystu sem nýtur traust íslenskra kjósenda og hefur víðtæka skírskotun frá miðju til hægri.Sjálfstæðisstefnan er enn öflug og á mikið erindi við þjóðina, og sem betur fer finnur stór hluti kjósenda enn þá samleið með grunngildum hennar um ábyrgð, frelsi og mannúð. En 19,4% fylgi á landsvísu er óásættanlegt og ásýnd flokksins og forystufólksins er löskuð.

Viðbúið er að komandi landsfundur einkennist af uppgjöri vegna hrakfaranna 30. nóvember.En svo þarf að horfa fram á við og hefja undirbúning sveitarstjórnarkosninganna 2026.

Undir forystu Sjálfstæðisflokksins hefur Hafnarfjarðarbæ verið stýrt af festu og ábyrgð. Viðsnúningur hefur orðið á erfiðri fjárhagsstöðu bæjarsjóðs, sköttum verið haldið í lágmarki og öflug uppbygging blasir við. Þessu þarf að koma til skila með öflugri kosningabaráttu sem tryggir að bænum okkar verði áfram stýrt af skynsemi og ráðdeild á næsta kjörtímabili.

Grundvöllur velgengni í næstu sveitarstjórnarkosningum er öflugt grasrótarstarf og þar er Sjálfstæðisfélagið Fram í lykilhlutverki.

Kæru félagar, ég óska ykkur farsældar á nýju ári og hlakka til að vinna með ykkur að framgangi Sjálfstæðisstefnunnar á komandi ári.

Hafnarfirði í desember 2024.

Með kærri áramótakveðju,



Svavar Halldórsson, 
formaður Sjálfstæðisfélagsins Fram.

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Scroll to Top