Börnin í fyrsta sæti

Fræðsluráð Hafnarfjarðar hefur á undanförnum misserum unnið að bættum hag leikskólabarna sem og að bæta starfsaðstæður starfsfólks í leikskólum Hafnarfjarðar.                                  

Á síðasta ári var ákveðið að óska eftir skráningu barna í leikskólann á milli jóla og nýárs. Mikil ánægja var meðal starfsfólks, einnig tóku foreldrar vel í þessa nýbreytni. Ekki er greitt fyrir þá daga sem börn eru í fríi. Þar sem svo vel tókst til var nýverið ákveðið að óska eftir skráningu barna í dimbilviku með sama hætti. Við þetta fyrirkomulag er hægt að áætla starfsmannaþörf hvers leikskóla með góðum fyrirvara og veita þeim starfsmönnum frí sem þess óska, miðað við fjölda barna. Huga má að því að skoða skráningar á fleiri dögum, til dæmis þegar vetrarfrí er í grunnskólum bæjarins og veita þannig starfsmönnum frí á þeim dögum miðað við fjölda barna. Með þessu fyrirkomulagi teljum við að við séum að færa leikskólann nær starfsumhverfi grunnskólans og þannig minnka bilið á milli þessara tveggja skólastiga.

Leikskólar Hafnarfjarðar opnir allt sumarið  

Fræðsluráð Hafnarfjarðar samþykkti á fundi sínum þann 12.  febrúar að afnema sumarlokanir í leikskólum Hafnarfjarðar. Frá og með sumrinu 2021 verða leikskólar Hafnarfjarðar starfræktir allt sumarið. Foreldrar munu geta valið um frí á tímabilinu júní – ágúst,  allt eftir þörfum hvers og eins. Taka þarf frí samfleytt í 4 vikur í senn eins og verið hefur. Fyrst og fremst eru þessar breytingar til þess að auka lífsgæði allra sem tengjast leikskólum Hafnarfjarðarbæjar og auka um leið þjónustu við íbúa sveitarfélagsins.

Vissulega kalla þessar breytingar á nýjar áskoranir í starfsumhverfi leikskólanna. Við erum fullvissar að þeim verði mætt af skilningi og  samvinnu. Og ekki síst; þeim krafti og þeirri fagmennsku sem einkennir leikskólastarf Hafnarfjarðarbæjar.

Skýrsla faghóps um bættar starfsaðstæður í leikskólum skilaði góðri greinagerð sem unnið hefur verið eftir og áfram verður rýnt í. Núverandi meirihluti mun áfram kappkosta að byggja ofan á það góða starf sem nú þegar hefur unnist, má þar nefna aukinn systkinaáfslátt, bætta hljóðvist, aukið rými og styttur vistunartími barna í leikskólum Hafnarfjarðar.

Kristín Thoroddsen

Formaður fræðsluráðs

Margrét Vala Marteinsdóttir

Varaformaður fræðsluráðs

Greinin birtist fyrst í Hafnfirðingi 20. febrúar 2020

Scroll to Top