Fyrirhugaðar breytingar á Hamraneslínu og Reykjanesbraut

Skipulags- og byggingarráð Hafnar­fjarðar samþykkti á fundi sínum 15. janúar síðastliðinn tvö framkvæmdaleyfi sem bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti svo á fundi sínum í síðustu viku. Þessi fram­kvæmda­leyfi munu marka tímamót í uppbyggingu og öryggi íbúðahverfis og atvinnu­lífs í Hafnarfirði sem voru orðin löngu tímabær.

Færsla Hamraneslínu

Tafir á niðurrifi Hamraneslínu er ekki í samræmi við uppbyggingaráform bæjarins, þar sem línan liggur við íbúabyggðina Skarðshlíð sem er í uppbyggingu og inn í jaðar fyrirhug­aðrar íbúabyggðar í Hamranesi. Af þessu hefur hlotist mikil töf á lóðaút­hlutunum á svæðinu. Til þess að línan hindri ekki frekari uppbyggingu var samþykkt að Landsnet fengi fram­kvæmdarleyfi fyrir breytingu á legu Hamraneslínu og mun háspennulínan færast tímabundið frá byggð og ný­bygg­ingar­svæðum þar til nýtt um­hverfis­mat vegna Lykla­fellslínu liggur fyrir. Vonir standa til að fram­kvæmdir fyrir varanlega Lyklafellslínu hefjist árið 2020. Staðið hefur til að færa háspennulínuna um töluvert skeið og er því miklum áfanga náð með veitingu þessa leyfis, íbúum í Vallahverfi og framtíðaríbúum á svæðinu til mikillar ánægju. Áætlað er að framkvæmdir hefjist fljótlega og ljúki í haust.

Tvöföldun Reykjanesbrautar

Vegagerðinni var veitt fram­kvæmdar­leyfi til að tvöfalda Reykjanesbrautina á kaflanum frá Kaldárselsvegi og vestur fyrir Krýsuvíkurgatnamót með því að byggja nýja akbraut sunnan núverandi vegar. Reykjanesbrautin verður lögð með þriggja metra breiða miðeyju milli akbrauta, grafin niður allt að fjóra metra á tveimur köflum og gerðar verða tvær nýjar göngubrýr yfir Reykjanesbrautina. Samhliða breikkun Reykjanesbrautar verður ráðist í umfangsmiklar aðgerðir til að minnka umferðarhávaða í ná­­grenni brautarinnar. Hafnarfjarðarbær hefur talað máli tvöföldunar Reykja­nesbrautar um árabil og er þetta liður í að tryggja öryggi þeirra sem um braut­ina fara og leysa umferðarvandann í gegnum Hafnarfjörð. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir geti hafist á þessu ári og verklok verði haustið 2020.

Við Hafnfirðingar höfum barist um langt skeið fyrir því að koma þessum málum í réttan farveg. Því ber að fagna þessum framkvæmdaleyfum og horfa björtum augum til uppbyggingar sveitarfélagsins og öryggi vegfarenda sem leið eiga um Hafnarfjörð.

Lovísa Traustadóttir
fulltrúi í skipulags- og byggingarráði, varabæjarfulltrúi, D.

Greinin birtist fyrst í Fjarðarfréttum 31. janúar 2019.

Scroll to Top