Ég vil fara á þing!
Eftir góða umhugsun, áskoranir og stuðning úr ýmsum áttum hef ég ákveðið að gefa kost á mér þegar valið verður á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi fyrir komandi þingkosningar. Ég sækist eftir öruggu þingsæti.
Minn metnaður og mínar hugsjónir standa til þess að gera Ísland betra. Frá því ég man eftir mér hef ég hugsað um samfélagið og reynt að hafa áhrif á mitt nærumhverfi. Það hefur verið gaman og krefjandi að vinna að ýmsum góðum málum í Hafnarfirði undanfarin ár, bæði sem varabæjarfulltrúi og í nefndarstörfum hjá bænum. Núna finnst mér tímabært að stíga skrefið lengra og verða fulltrúi flokksins á Alþingi.
Ég hef fundið mína rödd innan Sjálfstæðisflokksins þar sem ég hef verið virk í flokksstarfinu síðastliðin tólf ár. Ég vil vera fulltrúi fólks sem deilir með mér hugsjónum að framsæknu og góðu samfélagi þar sem umgjörðin virkar vel fyrir alla, þannig að áfram verði eftirsóknavert að starfa og búa í landinu. Minni álögur og greið leið ólíkra fyrirtækja til verðmætasköpunar eru á meðal minna baráttumála. Það er mikilvægt að hugað sé vel að einstaklingum, frelsi þeirra og að allir geti notið góðs lífs hér á landi. Ég tala einnig fyrir því að umgjörðin í málefnum barna virki þeim til heilla. Ég brenn fyrir framþróun í menntamálum og mikilvægi þess að nútímavæða kennslu og skapa námsefni sem taki mið af nýjum tímum.Ég tel að það vanti fulltrúa ungs fjölskyldufólks á Alþingi; fulltrúa þeirra sem eru allt í senn að ala upp börn, koma sér upp heimili og skapa sér starfsvettvang. Framtíð barnanna okkar er framtíð þjóðarinnar. Sem fyrsti varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins hef ég verið formaður menningar- og ferðamálanefndar Hafnarfjarðar þetta kjörtímabil. Þar hef ég haft forystu um að efla menningarlíf bæjarins og gera hann bæði skemmtilegan stað til að búa á og heimsækja. Ég hef einnig setið í fjölskylduráði og fræðsluráði og er fulltrúi bæjarins innan stjórnar Markaðsstofu Hafnarfjarðar. Það hefur verið góð reynsla að starfa á vettvangi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar að fjölbreyttum málum. Ánægjulegast er að sjá hvernig þjónusta við barnafjölskyldur hefur sífellt verið að eflast og hve vel hefur gengið með rekstur og fjármálastjórn bæjarins.
Ég hef sinnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn síðan ég tók mín fyrstu skref í stjórn Stefnis, félags ungra Sjálfstæðismanna í Hafnarfirði árið 2009, síðan í stjórn Fram, Sjálfstæðisfélags Hafnarfjarðar sem varaformaður. Ég sit nú í stjórn fulltrúaráðsins í Hafnarfirði og í framkvæmdastjórn Landssambands Sjálfstæðiskvenna.Ég er 36 ára gift Gísla Má Gíslasyni, hagfræðingi, og saman eigum við þrjú börn. Við búum í miðbæ Hafnarfjarðar rétt hjá æskuheimili mínu. Ásamt því að starfa í bæjarmálunum er ég upplýsingastjóri og aðstoðarmaður framkvæmdastjóra hjá Benchmark Genetics sem er 25 ára nýsköpunarfyrirtæki sem selur laxahrogn til fiskeldisstöðva út um allan heim og er með skrifstofur sínar í Hafnarfirði. Ég er með MA gráðu í alþjóðasamskiptum frá Háskóla Íslands (2011) og BA gráðu í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði frá Háskólanum á Bifröst (2008). Ég lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 2006.
Ég vil á þing!