Hafnarfjarðarbær hefur óskað eftir fleiri dagdvalarrýmum fyrir heilabilaða

Eitt af mikilvægustu verkefnum fjölskylduráðs Hafnarfjarðar er að greina þörf fyrir þjónustu og vinna að því að skilgreina og efla nærþjónustu við bæjarbúa á ólíkum aldursskeiðum. Mikil fjölmiðlaumræða hefur verið um skort á dagdvalarrýmum fyrir fólk með heilabilun og þar hefur komið fram bæði frá sjúklingum, aðstandendum og fagfólki hversu brýn þörf er fyrir aukinni þjónustu fyrir þennan hóp og það er einmitt eitt af þeim verkefnum sem fjölskylduráð hefur verið að beita sér fyrir á undanförnum mánuðum.

Biðtími eftir dagdvöl allt að eitt ár!

Að biðtími eftir dagdvöl sé allt að eitt ár, eins og nú háttar er óásættanlegt fyrir þennan hóp og fjölskyldur þeirra. Það liggur fyrir að mikilvægt er fyrir einstaklinga sem greinast með þennan sjúkdóm að hafa aðgengi að þjálfun og tómstund við hæfi og það getur hægt á þróun sjúkdómsins. Dagdvöl gerir ennfremur aðstand­endum kleift að sinna að hluta til áfram sínu daglega lífi en þessi sjúkdómur leggst í mörgum tilfellum þungt á fjölskyldu þess sem fær sjúkdóminn. Í dag sinnir Drafnarhús þjónustu við þennan hóp með 22 dagdvalar­rýmum sem nýtast töluvert stærri hópi og í samræmi fyrir fyrirliggjandi verkaskiptingu milli ríkis og sveitar­félaga þá greiðir Hafnarfjarðarbær fyrir húsnæðið en ríkið greiðir fyrir reksturinn. Hafnarfjarðarbær hefur óskað eftir samningi við ríkið um fleiri rými fyrir íbúa Hafnarfjarðar sem þurfa á þessari þjónustu að halda og lýst yfir vilja til að leggja til húsnæði. Ennfremur hefur verið samtal í gangi við Alzheimer samtökin um rekst­ur nýrrar dagdvalar en samtökin hafa lýst áhuga á að fá aðstöðu í hluta af St. Jósepsspítala sem nú er verið að endurnýja. Einnig er ljóst að rými er til staðar í eldra húsi að Sólvangi þannig að hér í Hafnarfirði er okkur ekkert að vanbúnaði með að auka þjónustu við þennan hóp. Það vantar einungis vilja og fjármagn frá ríkinu og þá erum við tilbúin með húsnæði í samræmi við fyrir­liggjandi verkaskiptingu.

Valdimar Víðisson, varabæjarfulltrúi og formaður fjölskylduráðs,
Helga Ingólfdóttir, bæjarfulltrúi og varaformaður fjölskylduráðs,
Guðbjörg Oddný Jónasdóttir, er varabæjarfulltrúi og fulltrúi í fjölskylduráði

Greinin birtist fyrst í Fjarðarfréttum 3. september 2018

Scroll to Top