Hafnarfjarðarhöfn er samofin sögu okkar Hafnfirðinga og er og mun verða mikilvæg um ókomna tíð. Hafnarfjörður hefur á undanförnum árum blómstrað, færst hefur meira líf í miðbæinn, veitingahúsum fjölgað og lista og menningarlíf hefur eflst til muna. Höfnin hér í Hafnarfirði er ákveðið aðdráttarafl, vegna sögu sinnar, atvinnuþátta og þeim sjarma sem yfir henni hvílir og því mikilvægt að standa vörð um það.
Haldið í sögu hafnarinnar
Í vinnu við nýtt rammaskipulag fyrir Óseyrar- og Flensborgarhöfn er horft til framtíðar, þar sem saga Hafnarfjarðar er umvafin framtíðinni, þar sem haldið er í gamlar byggingar sem skapað hafa söguna, eins og Íshúsið og Drafnarslippinn og þar sem unnið er að því að skapa jákvætt og þægilegt andrúmsloft með opnum svæðum og fjölbreyttum atvinnutækifærum. Íbúðabyggð er fyrirhuguð austast á svæðinu eða milli Óseyrar- og Hvaleyrarbrautar.
Iðandi mannlíf og blómleg atvinnustarfsemi
Með því að tengja saman hafnarsvæðið og miðbæ Hafnarfjarðar með strandstígnum er í raun verið að stækka miðbæinn og efla hann til muna. Blómleg atvinnustarfsemi á hafnarsvæðinu styður við atvinnustarfsemi í miðbænum og öfugt sem hvoru tveggja gerir Hafnarfjörð að spennandi valkosti.
Við upphaf hönnunarinnar á svæðinu var lagt upp með mikið og gott samtal við íbúa. Þeir sem komið hafa að vinnunni hafa haft það að markmiði að fjölga atvinnutækifærum í Hafnarfirði og finna leið til að veita almenningi betra aðgengi og tengingu við svæðið. Tækifæri til útivistar á hafnarsvæðinu eru fjölmörg hvort sem það er fyrir unga eða aldna en til þess þarf að bæta aðgengi sem og afþreyingarmöguleika.
Í maí munu loka drög að rammaskipulaginu liggja fyrir og spennandi verður að sjá í framhaldi og í framtíðinni hafnarsvæðið okkar fyllast af mannlífi og nýjum tækifærum með fjölbreyttri verslun og þjónustu í bland við glæsilega íbúabyggð.
Kristín María Thoroddsen, bæjarfulltrúi og formaður hafnarstjórnar og stýrir samráðsnefnd um uppbyggingu á Flensborgar- og Óseyrarsvæði.