Það var mikið fagnaðarefni fyrir okkur Hafnfirðinga og ekki síst íbúa á Völlum þegar undirritað var samkomulag sumarið 2015 um niðurrif Hamraneslínu og færslu Ísallínu. Forsenda þessara framkvæmda er ný lína, Lyklafellslína sem á að leggja í gegnum fjögur sveitarfélög sem öll gáfu út framkvæmdaleyfi. Hraunavinir og Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands kærðu veitingu framkvæmdaleyfisins sem úrskurðanefnd umhverfis- og auðlindarmála felldi úr gildi. Frá þeim tíma hefur verið unnið að útfærslu að færslu Hamraneslínunnar frá byggð og nýbyggingarsvæðum okkar Hafnfirðinga. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti í síðustu viku framkvæmdaleyfi á færslu Hamraneslínu til bráðabirgða frá byggð og nýbyggingarsvæðum þar til nýtt umhverfismat vegna Lyklafellslínu liggur fyrir og hægt verður að hefja feril línunnar að nýju. Flutningur Hamraneslínu sem á að ljúka í haust er mikilvægur áfangi fyrir íbúa á Völlum og uppbyggingu í Skarðhlíð og Hamranesi.
Tvöföldun Reykjanesbrautar
Í síðustu viku samþykkti Bæjarstjórn Hafnarfjarðar einnig framkvæmdaleyfi vegna tvöföldun Reykjanesbrautar frá Kaldárselsvegi út fyrir mislægu gatnamótin við Krýsuvíkurveg. Þessi framkvæmd er mikilvæg til að tryggja öryggi vegfarenda á þessari leið og ekki síður áfangi í að leysa umferðavandann á Reykjanesbraut í gegnum Hafnarfjörð. Framkvæmdir hefjast á þessu ári, verklok eru haustið 2020. Framkvæmd á Reykjanesbraut við Kaplakrika hefur verið boðin út, breytingin sem er ætluð til að liðka fyrir umferð á því svæði er til bráðabirgða þar til varanleg lausn fæst. Unnið er að lausn á umferðavandanum við Setberg/Lækjargötu. Við Hafnfirðingar gerum kröfu til þess að þau mál verði leyst fljótt og vel, annað er ekki boðlegt íbúum Hafnarfjarðar og öðrum vegfarendum sem fara þar um.
Veggjöld
Veggjöld eru mikið í umræðunni. Fram hefur komið að með tilkomu hóflegra veggjalda verði hægt að flýta nauðsynlegum framkvæmdum á stofnbrautum á höfuðborgarsvæðinu um mörg ár, þar inni eru Reykjanesbraut og Hafnarfjarðarvegur. Ávinningurinn er augljós, við þekkjum flest hvernig umferðin er á álagstímum og heyrum nánast daglega af slysum á vegum landsins. Með flýtiframkvæmdum mun umferðaröryggi aukast, ferðatími styttast og umferðin verður umhverfisvænni. Ég hvet alla til að kynna sér þetta mál vel og meta svo hver ávinningurinn er við að geta flýtt framkvæmdum um nokkur ár eða áratugi.
Ó. Ingi Tómasson
Bæjarfulltrúi (D)