Framtíð Hafnarfjarðar er björt. Undanfarin ár hefur mikill viðsnúningur átt sér stað í rekstri sveitarfélagsins og góður grunnur verið lagður fyrir áframhaldandi uppbyggingu á ýmsum sviðum. Við sjálfstæðismenn höfum sýnt það á kjörtímabilinu að við erum traustsins verð. Við höfum staðið við það sem við boðuðum fyrir síðustu kosningar. Þar ber hæst að hafa tekið fjármálin og rekstur sveitarfélagsins í gegn, en skuldahlutfall bæjarins hefur ekki verið lægra í 30 ár. Traustur rekstur og fjárhagur er grundvöllur þess að geta bætt þjónustuna og byggt upp á sem flestum sviðum sveitarfélagsins. Og vegna þess hve fjárhagsleg staða bæjarins hefur batnað hefur verið svigrúm til að efla þjónustuna, halda gjöldum í lágmarki, lækka skatta eins og útsvar og fasteignaskatta, setja af stað fjölmörg, ný góð verkefni og ráðast í framkvæmdir. Þessu verki er hvergi nærri lokið og mikilvægt að nýta vel þau tækifæri sem fram undan eru.
Við viljum halda áfram á sömu braut og styrkja þann góða grunn sem hefur verið lagður á kjörtímabilinu. Í kosningunum í dag þarf Sjálfstæðisflokkurinn að fá skýrt umboð til að verða forystuaflið við myndun nýs meirihluta og halda áfram að byggja upp okkar góða bæjarfélag af metnaði og ábyrgð. Það er mikilvægt að nýta tækifærin og þau hagstæðu skilyrði sem nú eru fyrir hendi í Hafnarfirði og að árangrinum verði ekki glutrað niður.
Höfum látið verkin tala
Í kosningunum í dag verður kosið um framtíð Hafnarfjarðar. Það verður kosið um það hvort haldið verði áfram á braut ábyrgrar fjármálastjórnunar og skynsamlegrar uppbyggingar líkt og undanfarin fjögur ár eða ekki. Við sjálfstæðismenn höfum látið verkin tala. Mikilvægt er að Sjálfstæðisflokkurinn haldi fimmta bæjarfulltrúanum í bæjarstjórn og því brýnt að allir sjálfstæðismenn nýti kosningarétt sinn. Tryggjum áframhaldandi uppbyggingu Hafnarfjarðar með góðri kosningu D-listans.
Höldum áfram og komum Hafnarfirði í allra fremstu röð.
Höfundur er formaður bæjarráðs og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. maí 2018