Látum verkin og tölurnar tala

Það hefur verið mikill gangur i uppbyggingu íbúðahúsnæðis í Hafnarfirði undanfarin misseri og mánuði. Þessi uppbygging kemur í kjölfar tafa sem urðu á framkvæmdum á helstu nýbyggingarsvæðum Hafnarfjarðar, í Skarðshlíð og Hamranesi. Eins og margir vita voru helstu ástæður tafarinnar þær að framkvæmdaleyfi fyrir flutningi raflína, sem lágu yfir byggingarsvæðunum, var kært og fellt úr gildi vorið 2018.

Flutningur raflínanna var frumforsemda þess að hægt væri að halda áfram að úthluta lóðum í Skarðshlíð og síðan Hamranesi og að þeir sem þegar voru komnir með lóðir þar vildu hefja byggingu húsa sinna. Lofað hafði verið, allt frá allt frá árunum fyrir hrun, að línurnar yrðu færðar burt. Á meðan beið heilt hverfi í Skarðshlíð úthlutunar, með alls183 lóðum undir 460 ibúðir.

Ládeyða á tíma Samfylkingar

Á meðan raflínurnar lágu yfir hverfinu var enginn áhugi á þessum lóðum og stóðu þær auðar, þrátt fyrir að vera tilbúnar. Það var svo þegar meirihluti Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar tók til starfa eftir kosningar 2014 sem skriður komst á flutning raflínanna. Eins og sjá má á meðfylgjandi súluriti seldust einungis 16 lóðir í Hafnarfirði á árunum 2010-2014, þegar Samfylkingin var síðast í meirhluta í bænum. Þess má geta að aðeins ein lóð undir fjölbýlishús seldist á þessum árum. Það var lóð á þéttingarreit fyrir 42 íbúðir. Svo mikið var mönnum í mun að koma einhverjum íbúðaframkvæmdum af stað að verktakanum sem átti lóðina var veittur ríflegur afsláttur af gatnagerðargjöldunum. Sá afsláttur skilaði sér þó ekki til kaupenda íbúðanna, því fermetraverð íbúðanna reyndist með því hæsta sem þá hafði sést á höfuðborgarsvæðinu.

Hafnfirðingum fjölgi um fjórðung

Þegar undirbúningur hófst á flutningi raflínanna árið 2015 komst fyrst hreyfing á lóðasöluna, samhliða var einnig farið í að breyta fyrra skipulagi í Skarðshlíð. Meðal annars með því að fjölga lóðunum, minnka þær og gera fýsilegri fyrir kaupendur.

Það voru því mikil vonbrigði þegar framkvæmdaleyfið á flutningi raflínanna var fellt úr gildi vegna kæru Hraunavina og Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands. Kæran tafði alla uppbyggingu á svæðinu eða þar til heimild fékkst til að færa línurnar til bráðabirgða. Það var svo undir forystu núverandi meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknar sem haldið var áfram við lóðaúthlutanir og íbúðauppbyggingu. Og eins og sjá má á súluritinu hefur heldur betur rofað til í þessum málum á kjörtímabilinu. Nú eru verkin látin tala. Alls hefur verið úthlutað 185 lóðum, á árunum 2018-2021, undir 2004 íbúðir, bæði á nýbyggingar- og þéttingarsvæðum, fyrir sérbýli sem og fjölbýli. Á þessu ári verður haldið áfram á þeirri braut. Uppbygging á íbúðahúsnæði í bæjarfélaginu hófst því af miklum krafti fyrir all nokkru, íbúum er farið að fjölga aftur og er gert ráð fyrir að á næstu fjórum árum hafi Hafnfirðingum fjölgað um sjö þúsund manns.

Því er holur hljómur í gagnrýni minnihlutans, einkum Samfylkingarinnar, á núverandi meirihluta í bæjarstjórn Hafnarfjarðar um að hafa ekki staðið sig í úthlutun lóða í bæjarfélaginu. Tölurnar tala sínu máli. 

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. febrúar 2022

Scroll to Top