Fræðsluráð Hafnarfjarðar samþykkti á fundi sínum í dag, 12. febrúar að afnema sumarlokanir í leikskólum Hafnarfjarðar. Frá og með sumrinu 2021 verða leikskólar Hafnarfjarðar starfræktir allt sumarið. Í könnun sem gerð var meðal foreldra leikskólabarna var spurt út í núverandi fyrirkomulag og hvort vilji væri fyrir því að hafa val um aðra mánuði en júlí mánuð. Niðurstaðan var afgerandi, 79% foreldra vildu velja í hvaða mánuði barnið þeirra tæki sumarfrí og auka þannig möguleika sína á því að vera í fríi á sama tíma og barnið. Foreldrar munu geta valið um frí í júní, júlí eða ágúst, allt eftir þörfum hvers og eins. Taka þarf frí samfleytt í 4 vikur í senn eins og verið hefur. Unnið verður að þessum breytingum í góðu samstarfi og samtali við stjórnendur og starfsfólk leikskólanna og foreldrum leikskólabarna.
Börnin í fyrsta sæti
Hafnarfjörður er barnvænt samfélag sem setur hag barna í fyrsta sæti og hefur unnið markvisst að því að bæta þjónustu við börn og fjölskyldur. Frelsi foreldra til að taka frí fyrir börn sín í öðrum mánuðum tryggir enn frekar góða þjónustu við barnafjölskyldur og þar með frekari möguleika foreldra til að taka frí á sama tíma og auka þannig samverustundir þeirra með börnum sínum. Fyrra fyrirkomulag hefur sett foreldra og börn í ákveðin vanda yfir sumartímann og foreldrar þurft að leita annara leiða til að tryggja vistun fyrir börn sín þegar leikskólinn lokar og foreldrar ekki í sumarfríi á sama tíma. Ákvörðunin er ekki einungis tekin út frá niðurstöðu könnunarinnar heldur hafa rannsóknir bent til þess að tengslamyndun barna við foreldra sína á fyrstu æviárum þeirra skiptir miklu máli í uppvexti þeirra og þroska og teljum við því að með þessari ákvörðun séum við að taka stórt skref í barnvænu samfélagi sem við búum við hér í Hafnarfirði.
Kristín Thoroddsen, formaður fræðsluráðs.
Margrét Vala Marteinsdóttir, varaformaður fræðsluráðs.