Lovísa Björg Traustadóttir

Lovísa Björg Traustadóttir

Framkvæmdastjóri, varabæjarfulltrúi
Býður sig fram í 3. sæti

Kæri sjálfstæðismaður, 

Ég býð mig fram í 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði. 

Ég hef verið varabæjarfulltrúi á þessu kjörtímabili og setið sem aðalmaður í skipulags- og byggingaráði.  Einnig hef ég setið í nokkrum starfshópum á vegum bæjarins,  m.a. verkefnastjórnun um hjúkrunarheimilið að Sólvangi, starfshópum um miðbæjarskipulagið og endurskoðun á húsnæðisstefnu bæjarins.  Þetta kjörtímabil hefur svo sannarlega verið krefjandi og jafnframt árangursríkt.   Reynsla síðasta kjörtímabils mun efla mig til enn frekari starfa. 

Ég er iðnrekstrarfræðingur með meistaragráðu í forystu og stjórnun og framkvæmdastjóri fyrirtækisins Flexi. Áður vann ég hjá Actavis ehf. í Hafnarfirði í rúm 14 ár.  Ég er eiginkona og móðir þriggja barna. Reynsla mín og þekking hefur nýst mér vel í störfum mínum á síðasta kjörtímabil.  

Þrátt fyrir viðsjárverða tíma hefur okkur tekist að styrkja fjárhagsstöðu bæjarins og tel ég að áhersla á traustan, sjálfbæran og ábyrgan rekstur sé forsenda fyrir því að hægt sé að draga úr álögum á íbúa og fyrirtæki.  Það er á valdi okkar sveitarstjórnarfulltrúa að sjá til þess að  sveitarfélagið skapi fjölbreytilegt umhverfi,  þar sem við höfum  valkosti sem henta hverjum og einum, hvort sem það er í samgöngu-, skipulags- eða félagslegum málum. Við sjálfstæðismenn í skipulags- og byggingaráði höfum unnið ötullega á þessu kjörtímabili að deiliskipulagi fyrir mörg hundruð fjölbreytilegra íbúða víðsvegar um bæinn sem mun leiða til fjölgunar íbúa í náinni framtíð.   

Við þurfum að halda áfram að berjast fyrir bættum samgöngum í þágu Hafnfirðinga. Einnig þarf að eiga samtal við fulltrúa ríkisvaldsins varðandi tekjur á móti þeim verkefnum sem hafa færst yfir á sveitarfélagið síðustu árin.  Hlutfall eldri borgara mun hækka verulega á næstu árum. Sveitarfélagið þarf að vera vel í stakk búið til að taka á móti þessum hópi með tilliti til búsetuúrræða, félagsstarfs, lýðheilsu og annarrar þjónustu. Enn fremur þarf að leggja aukna áherslu á umhverfismál með hagsmuni komandi kynslóða í huga. 

Ég hef brennandi áhuga á að bæta hag bæjarbúa og því óska ég eftir stuðningi þínum í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins sem verður haldið dagana 3-5. mars n.k.

Lovísa Björg Traustadóttir

Scroll to Top