Það er fast í tilverunni að jólalög í útvarpinu boða komu hátíðanna, lóan er velkomin vorboði og loforðaflaumur þýðir að kosningar eru í nánd. En á sama hátt eru óveður og stormar líka raunveruleg birtingarmynd íslenska vetrarins, vorinu gengur oft brösuglega að vinna á frostinu og efndir kosningaloforð ganga stundum seint og illa.
Verðmætasköpun er lykilinn
Öflugt atvinnulíf og aukin verðmætasköpun er eitthvað sem við öll viljum setja á oddinn, en líklegt er að kófið setji sterkan svip á komandi alþingiskosningar. En ýmislegt annað verður einnig í brennidepli; atvinnumál, innviðauppbygging og umhverfismál. En umræðan hlýtur þó að mótast verulega af því að nú horfum við upp á óvenju mikið atvinnuleysi, sem er eitt mesta böl sem steðjað getur að samfélaginu og þeim einstaklingum sem fyrir því verða.
Hið opinbera er ekki lausnin
Lausnirnar felast ekki í því að fjölga opinberum starfsmönnum. Heldur miklu frekar í því að ríkið búi atvinnulífinu umhverfi til að nýta hugvit, auðlindir og frumkvöðlakraft til þess að búa til verðmæti og gjaldeyristekjur með nýsköpun. Samgöngumál voru mikið rædd fyrir síðustu kosningar og vissulega hefur ýmislegt verið gert og áhugaverðar áætlanir á teikniborðinu. En hins vegar er margur hnúturinn ennþá óleystur, sértaklega á höfuðborgarsvæðinu. Þar þarf ríkið að stíga fastar inn.
Milljarðar fara árlega í súginn
Samtök iðnaðarins telja að níu milljónir klukkustunda hafi farið í súginn á höfuðborgarsvæðinu árið 2019 vegna umferðartafa. Starfsfólk fyrirtækja sem situr fast á vinnutíma kostar atvinnulífið tíu milljarða. Þessum fjármunum væri betur varið í verðmætasköpun. Það er líka óhemju leiðinlegt fyrir okkur sem búum á svæðinu að verja fjörutíu klukkustundum á ári í að hanga að óþörfu í bíl vegna umferðartafa.
Mikil mengun að óþörfu
Líklega verða þessar tölur talsvert hærri á allra næstu árum. En stóra málið er auðvitað sú mikla mengun sem af þessu hlýst. Við eru að tala um meira en þúsund tonna loftmengun frá bílum í umferðahnútum á suðvesturhorninu á hverju ári. Nú þarf að setja aukinn kraft í samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu og minnka þar með mengun, draga úr sóun verðmæta og auka lífsgæði.
Svavar Halldórsson.
Höfundur er Landsfundarkjörinn í atvinnuveganefnd Sjálfstæðisflokksins.