Vegir liggja til allra átta, en mestöll umferð suður með sjó liggur um Kaplakrika í gegnum Hafnarfjörð. Umferðarmagn á Reykjanesbraut í gegnum Hafnarfjörð hefur aukist um rúmlega 50% frá árinu 2010 og telur nú um 50.000 bíla á sólarhring. Því er ekki úr vegi að spyrja: Hver er staða ofanbyggðarvegar á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins eftir nýlega ákvörðun Garðabæjar um að falla frá legu stofnbrautar sem kölluð hefur verið Ofanbyggðarvegur frá Hafnarfirði til Kópavogs? Í stað fyrirhugaðra vegframkvæmda var settur innanbæjarvegur í aðalskipulag Garðabæjar sem mun tengja Flóttamannaveginn meðfram Urriðakotsvatni um Setbergsland og tengja síðan Reykjanesbraut við Álftanesveg í Engidal. Við að falla frá hugmyndum um Ofanbyggðarveg verður öll umferð til framtíðar um núverandi vegi með tilheyrandi flöskuhálsum og er von um að létta af umferð á Reykjanesbraut og Hafnarfjarðarvegi þá fyrir bý. Ég tel mikilvægt að halda lagningu Ofanbyggðarvegar vel á lofti. Reiknað hefur verið með því í skipulagi Hafnarfjarðarbæjar að hann komi í göngum í gegnum Vatnshlíðina en óvissa er nú með framhaldið í gegnum Garðabæ og inn í Kópavog. Mikilvægt er að sérfræðingar okkar sem best þekkja til á þessu sviði kanni alla möguleika á því hvernig best sé að leysa úr þessum vanda. Brýnt er að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu setji þetta mál í forgang vegna mikilvægis öflugra samgangna suður með sjó og þar með tengingu við alþjóðaflugvöllinn ásamt því að dreifa álaginu á umferð í gegnum stofnæðar Hafnarfjarðar.
28 janúar
Hilmar Ingimundarson
Birtist á www.mbl.is þann 02. febrúar 2022