Íslenskir stjórnmálaflokkar hafa samtals fengið um sjö milljarða króna úr ríkissjóði á síðustu árum, samkvæmt nýlegri úttekt Viðskiptablaðsins. Á sama tíma hefur dregið úr kjörsókn. Þótt ekki sé endilega beint orsakasamhengi þarna á milli, eru þetta líklega tvær birtingamyndir sömu neikvæðu lýðræðisþróunar.
Minnkandi kjörsókn
Í undanförnum alþingiskosningum hafa í kringum 80% nýtt sér kosningaréttinn. Á síðustu öld var þessi tala lengstum um eða yfir 90%. Sama mynd blasir við ef kjörsókn í sveitarstjórnarkosningum er skoðuð. Í vor sátu 100 þúsund kjósendur heima á kjördag. Þetta er varasöm þróun og ætti að vekja alla lýðræðissinna til umhugsunar. Það er eðlilegt að hafa áhyggjur. Sérstaklega fyrir okkur Íslendinga sem búum í einu minnsta sjálfstæða lýðræðisríki veraldarinnar.
Skammta sjálfum sér af opinberu fé
Stjórnmálaflokkarnir nýta milljarðanna sjö til að reka skrifstofur, halda fundi, borga starfsfólki og heyja kosningabaráttur. Ákvarðanir um upphæðir og fyrirkomulag þessara styrkja eru teknar af alþingismönnum. Það er í sjálfu sér óeðlilegast að stjórnmálamenn útdeili styrkjum til sjálfra sín. En þetta fyrirkomulag hefur líka neikvæði lýðræðisleg áhrif. Á sama tíma og opinberu styrkirnir hafa aukist, hefur sjálfstæð fjáröflun stjórnmálaflokkanna dregist verulega saman. Þar með hverfur ein mikilvæg leið fyrir flokksbundið fólk til að taka þátt í lýðræðislegu starfi.
Hófleg félagsgjöld
Eðlilegast væri að íslenskir stjórnmálaflokkar öfluðu sér rekstrarfjár með því að innheimta hófleg félagsgjöld. Til viðbótar geta flokkarnir síðan sótt sér frjáls framlög frá fólki og fyrirtækjum. Auðvitað eiga slíkir styrkir áfram að vera uppi á borðum. Eðlilegt er að setja skynsamlegt þak á styrkina og leggja á kvaðir um að bókhaldi sé skilað og að listi yfir styrkveitendur sé birtur. Stjórnmálamenn og -flokkar eyði svo í starfsmenn, veislur og auglýsingar eftir efnum og aðstæðum, en sendi ekki reikninginn til skattgreiðenda. Núverandi fyrirkomulag, þar sem skattgreiðendur borga undir stjórnmálamenn, flokka og skoðanir, skýtur verulega skökku við í lýðræðisríki.
Höfundur er stjórnmála- og stjórnsýslufræðingur og formaður Sjálfstæðisfélagsins Fram.
Greinin birtist áður í Morunblaðinu föstudaginn, 4. nóvember 2022