Prófkjör

Rósa Guðbjartsdóttir

Rósa Guðbjartsdóttir
Bæjarstjóri 
Býður sig fram í 1. sæti

Ég óska eftir áframhaldandi stuðningi Sjálfstæðismanna til að leiða lista flokksins í komandi bæjarstjórnarkosningum. Undanfarin átta ár hef ég verið oddviti flokksins í Hafnarfirði og komst Sjálfstæðisflokkurinn í meirihluta í bæjarstjórn árið 2014 eftir langt hlé.

Ég tók fyrsta sæti í bæjarstjórn Hafnarfjarðar árið 2006. Hef meðal annars verið formaður fræðsluráðs og bæjarráðs en undanfarin fjögur ár hef ég gegnt starfi bæjarstjóra Hafnarfjarðar. Ég er stjórnmálafræðingur að mennt og starfaði um árabil sem blaða- og fréttamaður, lengst af á Stöð 2. Þá starfaði ég einnig sem framkvæmdastjóri Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna (SKB) um fimm ára skeið en undanfarin 12 ár hef ég verið formaður stjórnar félagsins.

Það hefur gengið mjög vel á tímabilinu sem við Sjálfstæðismenn höfum verið í forystu í bæjarmálunum. Fjármálin hafa tekið stakkaskiptum, framkvæmdir verið miklar, fyrirtækin flykkjast til bæjarins, íbúðauppbygging er nú á fljúgandi ferð, þjónusta hefur verið efld á ýmsum sviðum, álögur lækkaðar, miðbærinn styrkst og mannlífið blómstrað sem aldrei fyrr og svo mætti áfram telja. Ég hef mikinn metnað til að efla og styrkja bæinn okkar enn frekar og því sækist ég eftir stuðningi til áframhaldandi góðra verka fyrir Hafnarfjörð og Hafnfirðinga.