Samvinna skiptir máli

Ekkert verður eins og áður, á einni nóttu breyttist líf okkar allra til frambúðar. Enginn vissi hve lengi ástandið yrði og enginn hafði reynslu af sambærilegu verkefni. Verkefnið sem kennarar og annað starfsfólk á mennta- og lýðheilsusviði Hafnarfjarðar fengu í hendurnar var stórt og flókið úrlausnar en með fagmennsku og æðruleysi tókst skólasamfélaginu að takast á við það af alúð og öryggi. Það var þó ekki aðeins skólasamfélagið sem stóð vaktina. Foreldrar tóku virkan þátt í menntun barna sinna svo eftir var tekið og nemendur voru fljótir að tileinka sér nýjar  kennsluaðferðir. Starfsfólk mennta- og lýðheilsusviðs, ásamt öðru starfsfólki Hafnarfjarðarbæjar, leysti vel því krefjandi verkefni að halda skólastarfinu gangandi.

Fræðsluráð Hafnarfjarðar veitti Tónlistarskóla, leik- og grunnskólum Hafnarfjarðar sérstaka  viðurkenningu á dögunum fyrir framlag sitt og vil ég ítreka þakklæti okkar til þeirra.  

Rödd unga fólksins

Með samvinnu allra gerum við gott skólasamfélag betra. Ungmennaráð Hafnarfjarðar hélt sinn árlega fund síðastliðinn miðvikudag þar sem fulltrúar ráðsins fluttu tillögur sínar fyrir bæjarstjórn.  Þar á meðal voru tillögur um aukna kennslu í skyndihjálp, breytt skólasund í unglingadeild og  minna heimanám. Þessar tillögur og fjölmargar aðrar verða verkefni fræðsluráðs á næstu önn.

Saman tókst okkur að komast í gegnum krefjandi aðstæður þar sem samvinnan skipti sköpum.

Gleðilegt sumar!

Kristín Thoroddsen

Bæjarfulltrúi og formaður fræðsluráðs

Greinin birtist fyrst í Hafnfirðingi 2. júní 2020

Scroll to Top