Það fjölgar árlega í þeim hópi sem við í skilgreinum í daglegu tali sem eldri borgara og það er vegna þess að við lifum lengur og stærri árgangar fara á eftirlaun. Opinber stefnumótun heilbrigðiskerfisins leggur áherslu á að styðja við sjálfstæða búsetu sem lengst og sem varaformaður Fjölskylduráðs hef ég á undanförnum árum tekið þátt í að þróa og betrumbæta þjónustu við eldri borgara í Hafnarfirði.
Heilsuefling og þjónusta fyrir eldri borgara
Janusarverkefnið er dæmi um vel heppnaða heilsueflingu þar sem einstaklingum frá 65 ára aldri býðst einstaklingsmiðuð þjálfun undir leiðsögn fagfólks sem er miðuð að því að efla þol og styrkja vöðva sem er lykilatriði fyrir góða líkamlega heilsu á efri árum. Með greiðsluþátttöku bæjarins og frístundakorti er flestum gert kleift að taka þátt í verkefninu og nú, þegar tvö ár eru frá útskrift fyrsta hópsins, verða langtímaáhrif verkefnisins könnuð sérstaklega. Allir eru velkomnir í göngu í Frjálsíþróttahús FH og eldri borgarar hafa nýtt sér að ganga þar á mjúku undirlagi og þá er starfræktur gönguhópur frá Haukahúsinu þar sem fjöldi manns hittist í hverri viku. Félag eldri borgara í Hafnarfirði nýtur öflugs stuðnings frá Hafnarfjarðarbæ. Félagið stendur fyrir fjölbreyttri og áhugaverðri dagskrá alla virka daga í Hraunseli að Flatahrauni 3. Sjálfbært félagsstarf er í forgrunni starfseminnar og njóta hundruð félagsmanna og Hafnfirðinga þess í hverri viku. Hafnarfjarðarbær sinnir heimaþjónustu við eldri borgara og þeir sem þess óska geta fengið heimsendan mat og einnig er akstursþjónusta í boði.
Öflug uppbygging á Sólvangi
Á liðnum árum hefur farið fram öflug uppbygging á Sólvangsreitnum þar sem við höfum byggt nýtt hjúkrunarheimili ásamt endurbótum á eldra húsi sem eru á lokastigi. Nú eru á Sólvangi 71 hjúkrunarrými, 39 rými í sérhæfðri hvíldarinnlögn og tæplega 30 dagdvalarrými fyrir eldri borgara og einstaklinga með heilabilun á jarðhæð. Eftir endurbætur á rishæð verður þar miðstöð heimaþjónustu og heimahjúkrunar gangi eftir samningar þess efnis við heilbrigðisráðuneytið en það er sívaxandi þörf fyrir þjónustu heim fyrir eldri borgara og nauðsynlegt að vinna að því að efla og samþætta þetta þjónustuform sem er lykilatriði til að styðja við sjálfstæða búsetu sem lengst. Þegar endurbótum lýkur má ætla að á Sólvangi verði samfélag þar sem um 500 manns búa og starfa daglega.
Hagkvæmar íbúðir og heilsugæslu á Vellina
Brýn þörf er fyrir litlar hagkvæmar íbúðir fyrir eldri borgara sem vilja minnka við sig húsnæði. Ég vil beita mér fyrir því að þannig íbúðir verði byggðar á Sólvangsreitnum þar sem stutt er í þjónustuna á Sólvangi, umhverfi fallegt, góðar gönguleiðir og samgöngur í næsta nágrenni. Næsta verkefni verður síðan að taka upp viðræður um heilsugæslu og hjúkrunarheimili á Völlunum þar sem ört stækkandi samfélag kallar á þjónustu. Eldri borgarar eru fjölbreyttur hópur með ólíkar þarfir og við því þarf að bregðast með heildstæðri stefnumótun. Þjónustuframboð þarf að taka mið af þessu og vera einstaklingsmiðað og samþætt þannig að samfélagið styðji við þennan hóp eftir því sem þarfir fyrir þjónustu breytast. Öldungaráð Hafnarfjarðar hefur verið starfandi allt frá árinu 2006 en það er fyrsta ráð sinnar tegundar á landinu og er mikilvægur samstarfsaðili bæjarins um þróun og mótun þjónustu við eldri borgara til framtíðar.
Ég vil taka þátt í því að móta áfram betri og víðtækari þjónustu við fjölbreyttan og sívaxandi hóp eldri borgara og bið um stuðning í 2.-3. sæti í komandi prófkjöri sjálfstæðismanna hinn 3.-5. mars nk.
Höfundur er bókari og bæjarfulltrúi. helgai@hafnarfjordur.is
Greinin birtist fyrst á mbl.is 6. febrúar 2022