Af gjöldum og álögum í Hafnarfirði

Að undanförnu hefur borið á misvísandi fréttum í ýmsum fjölmiðlum um meintar hækkanir á álögum í Hafnarfirði milli ára. Hið rétta er að álögur á íbúa bæjarins hafa ekki verið hækkaðar umfram verðlagshækkanir. Núverandi meirihluti hefur það ekki á sinni stefnuskrá að hækka álögur á bæjarbúa og við það munum við standa.

Síðustu ár hefur verið lögð áhersla á það í bæjarstjórn Hafnarfjarðar að halda álögum og gjöldum í lágmarki og í tíð núverandi meirihluta er sérstaklega litið til þess að létta undir með barnafjölskyldum. Skýrustu dæmin um það eru að leikskólagjöld hafa ekki hækkað í krónutölum nú í sex ár þrátt fyrir aukna þjónustu, systkinaafslættir hafa verið stórauknir í skólakerfinu, álagningarhlutfall útsvars er í fyrsta sinn í 25 ár ekki í hámarki í bæjarfélaginu og fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði hafa verið lækkaðir umtalsvert á síðastliðnum tveimur árum og eru nú með þeim allra lægstu á höfuðborgarsvæðinu, eða 1,40%.

Fasteignagjöldin hækka ekki

Lögð hefur verið áhersla á að halda fasteignagjöldum á íbúðarhúsnæði í lágmarki, til að koma til móts við sífellda hækkun á fasteignamatinu. Fasteignagjöldin eru samsett úr fasteignaskatti, vatns- og holræsagjaldi, auk sorphirðugjalds sem er lögbundið að þurfi að standa undir kostnaði við þjónustuna. Undanfarin ár hefur ýmist verið lækkuð fasteignaskattsprósentan eða vatns- og holræsagjöldin til að lækka heildarálagninguna. Hún er það sem skiptir máli. Það er, hver upphæðin er sem fasteignaeigendur borga í heildina en ekki hvernig samsetning gjaldanna er hverju sinni.

Þegar einungis fasteignaskattshlutfallið er skoðað og borið saman milli sveitarfélaga getur myndin því orðið nokkuð villandi. Í fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2020 er lagt til að vatns- og holræsisgjaldið lækki til að ná heildarálagningunni niður. Sú leið er lögð til þar sem meira svigrúm er einfaldlega fyrir hendi þar nú en í fasteignaskattshlutanum.

Meðfylgjandi mynd sýnir samsetningu gjaldanna í Hafnarfirði á milli ára.

Þegar skoðað er hvernig heildarálagningin kemur við mismunandi tegundir fasteigna á milli áranna 2019 og 2020 sést að þá hækkar heildarálagning fasteignagjaldanna að jafnaði um 0,1%-3,5% eftir tegund húsnæðis. Það sést á meðfylgjandi töflu.

Þess ber að geta að fasteignamatið hækkar aðeins mismunandi eftir hverfum en markmiðið er að fasteignagjöldin í bæjarfélaginu hækki ekki umfram verðlag milli ára. Það er heildarálagningin og niðurstaðan hjá hverjum og einum íbúðareiganda sem skiptir að mínu mati öllu máli, ekki hvernig samsetning gjaldanna er.

Á þessu sést að allt tal um að núverandi meirihluti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar sé að hækka álögur á íbúa bæjarins á sér ekki stoð í veruleikanum.

Höfundur er bæjarstjóri í Hafnarfirði.

Birtist fyrst á mbl.is 28. nóvember 2019

Scroll to Top