Aukið valfrelsi, meiri lífsgæði og betri þjónusta

Það er góð tilfinning fyrir kjörna fulltrúa þegar þeir finna fyrir áhuga og ástríðu íbúa fyrir þeim málum sem þeir vinna að. Það er afar þakkarvert þegar íbúar og starfsmenn sveitarfélagsins leggja á sig mikla vinnu til að setja sig inn í mál, hvort sem það er til að gagnrýna eða styðja tiltekin málefni.

Þannig er það líka með málefni heilsársleikskóla í Hafnarfirði sem hafa verið í umræðunni undanfarið. Með heilsársleikskóla er átt við að leikskólarnir munu ekki loka yfir sumartímann. Í staðinn munu foreldrar og starfsmenn fá aukið valið þegar kemur að því að velja sér sumarfrí sem hentar fjölskyldunni og þeim sem okkur standa næst.

Aukið valfrelsi eykur lífsgæði fjölskyldna, gefur fjölskyldum betra tækifæri til að eyða sínu sumarfríi sem ein heild. Aukið valfrelsi gefur starfsmönnum meira svigrúm til að eyða sínu sumarfríi eins og þeim og þeirra fjölskyldu hentar best.

Mikil breyting hefur orðið á faglegu starfi innan leikskóla í landinu á undanförnum árum, á meðan þjónustan hefur ekki tekið breytingum miðað við það nútíma samfélag sem við búum við í dag.  Kröfur atvinnulífsins hafa breyst, þær eru orðnar meiri og ítarlegri með tilheyrandi auknu álagi á fjölskyldur. 

Á stuttum tíma hafa orðið breytingar sem mikilvægt er að tekið sé tillit til og er opnunartími leikskólanna þar engin undantekning. Með auknu valfrelsi er Hafnarfjarðarbær að stíga til móts við fjölskyldur og létta undir álaginu með þeim. Um leið auka við þær gæðastundir sem öllum fjölskyldum er ekki bara nauðsynlegar – þær eru forsenda fyrir hamingju og þroska allra barna.

Framfarir kalla á verkefni sem við leysum í sameiningu

Það er ljóst að þessar breytingar kalla á áskoranir og krefjandi úrlausnir. Vangaveltur eins og hvort gæði starfsins dvíni, leikskólarnir verði  fáliðaðir yfir sumarmánuðina og börnin mögulega einmanna ef fátt verður á deildum eru góðar og gagnlegar ábendingar sem verða leystar. Það vill engin draga úr gæðum leikskólastarfsins, það stefnir engin að fáliðuðum leikskólum og það vill engin sjá einmanna börn. Við erum öll sammála um það og leysum það í sameiningu. 

Starfshópur skipaður af starfsmönnum, stjórnendum, foreldrum, starfsmönnum mennta- og lýðheilsusviðs og kjörnum fulltrúum mun fjalla um allar þær vangaveltur og ábendingar sem upp hafa komið og tryggja að hugað sé að öllum þeim atriðum sem viðkoma leikskólastarfi í Hafnarfirði. Starfshópurinn mun  skila af sér  tillögu að útfærslum þar sem faglegt starf leikskólanna allt árið um kring  verður tryggt og að vellíðan barna og öryggi verði ávallt  haft að leiðarljósi.   

Breytingar eru alltaf erfiðar og sér í lagi þegar breyta á skipulagi eins og opnunartíma sem verið hefur óbreytt til margra ára, en í breytingum felast tækifæri og hugmyndir sem ekki voru sýnilegar áður.  Þá stendur eftir að þessar breytingar eru framfarir fyrir foreldra, forráðamenn og starfsfólk leikskóla Hafnarfjaðrarbæjar. Þessar breytingar auka valfrelsi, lífsgæði og þjónustu.

Kristín Thoroddsen

Formaður fræðsluráðs Hafnarfjarðar

Margrét Vala Marteinsdóttir

Varaformaður fræðsluráðs Hafnarfjarðar

Greinin birtist fyrst í Hafnfirðingi 2. mars 2020

Scroll to Top