Möguleg lausn á mönnunarvanda leikskóla
Leikskólinn er ekki aðeins mikilvægur þegar kemur að menntun og þroska barna okkar heldur er hann einnig undirstaða atvinnulífsins. Við höfum sannarlega lært það á undanförnum árum hversu mikilvægur hann er og starfsfólk leikskóla flokkað sem framlínustarfsfólk. Mannekla vegna veikinda, sóttkvíar og álags leggst þungt á þá sem standa vaktina hverju sinni og loka hefur þurft deildum um allt land. Ekki aðeins hefur Covid sett mark sitt á mönnunarvanda leikskóla heldur hafa reglugerðabreytingar líkt og eitt leyfisbréf, þar sem leikskólakennurum er heimilt að nýta leyfisbréf sitt í grunn- og framhaldsskólum, gert það að verkum að leikskólinn keppir við grunnskólastigið um hæfa kennara. Þá hefur lengd háskólanáms úr þremur árum í fimm haft sitt að segja, brautskráningum úr leikskólakennaranámi hefur fækkað á sama tíma og börnum hefur fjölgað. Í ofanálag hefur stytting vinnuvikunnar og breyting á undirbúningstímum kallað á fleiri starfsmenn sem einfaldlega liggja ekki á lausu.