Framtíðaruppbygging á Hraunum

Síðustu ár hefur verið unnið að skipulagi iðnaðarsvæðisins Hraun vestur, svæði sem afmarkast af Reykjavíkurvegi, Fjarðarhrauni og Flatarhrauni. Markmið skipulagsvinnunnar er að skapa skilyrði fyrir uppbyggingu íbúða og fjölbreyttrar þjónustu á svæðinu.  Deiliskipulagstillaga sem nær til lóða við Reykjavíkurveg 60 og 62 og Hjallahrauns 2, 4 og 4a sem gerir ráð fyrir uppbyggingu á 490 íbúðum ásamt verslun, þjónustu og leikskóla var samþykkt af fulltrúum meirihlutans ásamt fulltrúum Miðflokksins í skipulags- og byggingarráði og í bæjarstjórn, í báðum tilfellum greiddu fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Bæjarlistans atkvæði gegn tillögunni. Deiliskipulagstillagan ásamt breytingu á aðalskipulagi fyrir sama svæði fer nú í auglýsingar- og kynningarferli.

Skipulag og uppbygging

Í dagsins önn eru skipulagsmál ekki ofarlega í huga fólks. Við höfum öll heyrt talað um rammaskipulag, deiliskipulag, aðalskipulag og svæðisskipulag. Hvað sem allt þetta nefnist eru það alltaf gæði, verð og framboð íbúðarhúsnæðis sem við flest hugsum um þegar við erum í hugleiðingum um íbúðarkaup.  Öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu samþykktu árið 2015 svæðisskipulag fyrir höfuðborgarsvæði sem gildir til ársins 2040. Samkvæmt svæðisskipulaginu eigum við Hafnfirðingar óbrotið land undir um 2500 íbúðir, þörfin miðað við 2% fólksfjölgun er 6.300 –  7.600 íbúðir. Rammaskipulag fyrir Flensborgarhöfn og Óseyrarsvæði svo og rammaskipulag fyrir Hraun vestur gera ráð fyrir uppbyggingu fjölda íbúða sem mun að miklu leiti mæta þeirri þörf sem verður næstu 20 árin fyrir uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Hafnarfirði.

Fyrsta skrefið

Deiliskipulagstillaga sem nú liggur fyrir er fyrsta skrefið á uppbyggingu á Hraunum vestur. Að mati okkar sem samþykktum tillöguna opnar hún á fjölbreytta byggð íbúðar-, verslunar- og þjónustuhúsnæðis, sé í samræmi við þá framtíðarsýn og hugmyndir sem settar eru fram í rammaskipulagsdrögum fyrir Hraun vestur og falli vel að markmiðum svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins þar sem meginstefnan er uppbygging og þétting byggðar við miðkjarna og önnur samgöngumiðuð þróunarsvæði. Hér er komið vandað skipulag og fyrsta skrefið að uppbyggingu á svæðinu sem svarar eftirspurn þeirra sem vilja búa miðsvæðis í Hafnarfirði.

Ó. Ingi Tómasson, formaður skipulags- og byggingaráðs

Lovísa Traustadóttir, fulltrúi í skipulags- og byggingarráði

Ágúst Bjarni Garðarsson, varaformaður skipulags- og byggingaráðs

Greinin birtist fyrst í Hafnfirðingi 18. júní 2020

Scroll to Top