Frelsi til uppbyggingar

Eftir erfiða tíma í skugga covid sem einkennst hafa af óvissu á flestum sviðum mannlífs og menningar gefst nú loksins tækifæri til þess að horfa fram á veginn og marka stefnu í atvinnuþróun til framtíðar. Mikilvægt er að við byggjum á þeirri reynslu sem safnast hefur síðasta árið og nýtum hana til að fóta okkur í breyttum heimi eftir heimsfaraldurinn. Sú vinna er nú þegar hafin og má sem dæmi nefna aukin stuðning stjórnvalda við verkefni tengd rannsóknum og þróun og nýsköpunarsjóðinn Kríu. Það hefur aldrei verið mikilvægara en nú fyrir okkur Íslendinga að huga að nýsköpun og gera atvinnulífið fjölbreyttara og skapa um leið störf á nýjum grunni. Ísland hefur einstaka stöðu, við erum með hátt menntunarstig og í þjóðinni býr hugvit og kraftur sem þarf að virkja til frekari uppbyggingar. Við verðum að velja leiðina þar sem allir fá að njóta sín og skapa verðmæti á þeim grunni sem við höfum þegar byggt.

Við svona tímamót gefst tækifæri til að endurskoða ýmsa hluti og ég tel mikilvægt að einstaklingsframtakið fái að njóta sín og að einstaklingurinn hafi frelsi til athafna án mikillar aðkomu stjórnvalda. Með einföldun regluverka og markvissum aðgerðum til að skapa frjóan jarðveg geta framtakssamir einstaklingar og fyrirtæki hafið eða aukið rekstur sinn. Með þessu skapa þau mikilvæg ný störf og auknar tekjur.

Bæði einstaklingar og fyrirtæki hafa orðið fyrir neikvæðum áhrifum af heimsfaraldrinum. Margir hafa misst vinnuna og fyrirtæki farið í gjaldþrot. Þrátt fyrir þetta er áhugavert að sjá hvað einkaframtakið lifir sterku lífi í þessu árferði. Frá apríl 2020 til mars 2021 voru stofnuð 2.832 einkahlutafélög sem er þriðjungi meira en á sama tímabili árið áður skv. tölum Hagstofunnar. Þetta sýnir okkur að þrátt fyrir allt er fólk bjartsýnt og tilbúið að horfa til framtíðar og finna nýjar leiðir til að koma atvinnulífinu í fulla keyrslu. Því er mikilvægt að stjórnvöld greiði götu þeirra sem vilja hefja rekstur og hvetji þá áfram með því að hafa regluverkið einfaldara og lágmarka gjaldtöku svo fyrstu skref í rekstri verði ekki þung.

Hefjum nú öll tímabil uppbyggingar og vinnum saman að fjölbreyttu atvinnulífi þar sem allir geta tekið þátt.

Guðbjörg Oddný Jónasdóttir, varabæjarfulltrúi í Hafnarfirði.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu, 1. maí 2021

Scroll to Top