
Nú eru níutíu ár liðin frá því að ungir og öflugir piltar komu saman til að stofna íþróttafélag hér í Hafnarfirði. Þetta íþróttafélag hefur síðan þá borið nafnið Haukar og er saga félagsins, uppbygging, kraftur og vöxtur samofin sögu Hafnarfjarðar líkt og saga fleiri félaga og félagasamtaka hér í bæ. Haukar hafa átt sinn þátt í því að stimpla Hafnarfjörð inn sem íþróttabæinn og heilsubæinn Hafnarfjörð og hafa, líkt og ansi mörg önnur félög innan bæjarmarkanna bæði fyrr og síðar, alið af sér íþróttafólk á heimsmælikvarða. Þannig hefur frábær árangur borið hróður bæjarins víða og greinilegt að það er og hefur lengi þótt gott og farsælt að alast upp í hrauninu og víðáttunni í Hafnarfirði og hjá hafnfirsku íþróttafélagi. Þessi árangur um margra áratuga skeið segir mikið til um þann metnað, slagkraft og fagmennsku sem einkennir starf félaganna í bænum. Um lífið og fjörið innan félaganna og þá ekki síst um öflugt og dýrmætt stuðningsnet sjálfboðaliða sem hafa unnið óeigingjarnt og ómetanlegt starf í þeirra þágu. Starf sem verður seint og líklega aldrei fullþakkað.
Fjölbreytileiki félaganna í Hafnarfirði og þeirra íþróttagreina sem hægt er að stunda innan bæjarins hefur aukist með vaxandi íbúafjölda og stækkandi samfélagi þar sem góð heilsa og almenn lífsgæði vega sífellt þyngra hjá hverjum og einum óháð aldri. Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði hafa ætíð lagt áherslu á að efla og styrkja íþróttastarfið samhliða annarri uppbyggingu í bænum enda ríkir mikill skilningur á þörfinni og áhuganum og ekki síst á því hversu mikið og sterkt forvarnargildi öll hreyfing, hvetjandi félagsskapur og flottar fyrirmyndir hefur í stóra samhenginu. Það skiptir miklu máli að ýta undir starfið með uppbyggingu íþróttamannvirkja og öflugum alhliða stuðningi. Hvort sem er í gegnum þjónustu- og rekstrarsamninga, með frístundastyrkjum eða stigvaxandi uppbyggingu sem unnin er samkvæmt forgangslista og þarfagreiningu.
Nú hyllir í að framkvæmdir fari af stað við byggingu á langþráðu knatthúsi á Ásvöllum og samhliða er verið að byggja upp nýja grasvelli á svæðinu sem án efa margir eiga eftir að njóta góðs af. Þessum framkvæmdum fögnum við mjög og afar ánægjulegt að sjá þessar framkvæmdir fara af stað á 90 ára afmælisári félagsins. Á þessum tímamótum vil ég, fyrir hönd bæjaryfirvalda í Hafnarfirði og starfsfólks Hafnarfjarðarbæjar, senda öllu Haukafólki, fyrr og síðar, innilegar hamingjuóskir í tilefni stórafmælisins með hjartans þökkum fyrir faglegt og óeigingjarnt framlag í áranna rás. Orðatiltækið að það þurfi heilt þorp til að ala upp eitt barn á vel við á þessum tímamótum.
Takk Haukar fyrir ykkar þátttöku í uppeldinu.
F.h. Hafnarfjarðarbæjar
Rósa Guðbjartsdóttir
bæjarstjóri Hafnarfjarðar