Heilsuefling fyrir ömmu og afa

Mikilvægi forvarna verður aldrei ofmetið. Eftir því sem aldurinn færist yfir því mikilvægara er að einstaklingar hugi að lífsstíl og forvörnum til að bæta heilsu og þar með lífsgæði.

Það er hverju samfélagi dýrmætt að hugsað sé vel um eldra fólkið og gefa því tækifæri til að stunda líkamsrækt hvers konar og tryggja aðgengi að fjölbreyttu félagsstarfi.

Með markvissu forvarnarstarfi og virkni eldri borgara er einnig hægt að lækka útgjöld í félagslegum og heilbrigðistengdum verkefnum hjá bæði sveitarfélögum og ríkinu.

Hafnarfjarðarbær hefur lagt áherslu á fjölbreyttar forvarnir og hefur tekið ákveðna forystu á því sviði fyrir eldri borgara.

„Fjölþætt heilsuefling 65 plús – leið að farsælum efri árum“ undir handleiðslu Janusar heilsueflingar hefur verið í boði fyrir eldri borgara í bænum frá árinu 2016 og er liður í heilsustefnu Hafnarfjarðar. Hjá Janusi heilsueflingu stunda einstaklingar styrktarþjálfun með þjálfara, fylgst er með árangri af æfingunum með reglulegum mælingum og einnig eru ýmis fræðsluerindi um almennt heilbrigði. Hafnarfjarðarbær er eina sveitarfélagið sem býður upp á frístundastyrk fyrir 67 ára og eldri.

Sparnaður vegna heilsueflingar 7,5 milljarðar
Ítrekað hefur verið sýnt fram á að heilsuefling eldri borgara eykur ekki aðeins lífsgæði heldur gerir þeim kleift að halda sjálfstæðri búsetu lengur en ella. Kostnaður ríkisins við rekstur á einu hjúkrunarrými er 15 milljónir á ári. Um 500 einstaklingar hafa farið í gegnum heilsueflingarverkefnið í Hafnarfirði. Ef við gefum okkur að við höfum náð að lengja tíma þeirra allra um eitt ár heima þá hefur Hafnarfjarðarbær sparað 7,5 milljarða fyrir ríkið sem hefði annars farið í rekstur hjúkrunarrýma.

Mikil ánægja hefur verið meðal eldri Hafnfirðinga með þetta verkefni og það hefur líka haft félagslegt gildi og aukið virkni þeirra. Flestir þeirra sem hafa notið handleiðslu Janusar halda áfram að stunda reglulega hreyfingu, eftir að námskeiði lýkur.
Fjöldi einstaklinga sem eru eldri en 65 ára á Íslandi er 54 þúsund og hefur fjölgað um 40% á síðustu tíu árum. Heilbrigðiskerfið getur ekki staðið undir þessari þróun og því er mikilvægara sem aldrei fyrr að setja aukið fjármagn í heilsueflingu eldri borgara. Fjárhagslegi ávinningurinn er augljós en bætt heilsa og aukin lífsgæði samhliða virkri þátttöku í samfélaginu, verða ekki metin til fjár.
Í Hafnarfirði er einnig gott félagsstarf í Hraunseli og félag eldri borgara miðlar reglulega til fjölskylduráðs hvað betur mætti fara í þjónustunni.

Betri lífsgæði og bætt heilsa
Við eigum stöðugt að leita leiða til að auka lífsgæði og bæta heilsu bæjarbúa. Þannig drögum við úr félagslegum og heilsufarstengdum vandamálum. Við viljum öll að amma og afi eigi langt og gott ævikvöld. Í því felst sannur auður fyrir fjölskyldur og samfélagið allt. Þessi mikilvægi hópur hefur með ást sinni, umhyggju, lífsreynslu og visku leitt okkur í gegnum lífið, rutt leið fyrir okkur til bættra lífskjara.
Horfum til framtíðar með auknum forvörnum, bætum þannig lífsgæði og spörum um leið fjármuni.

Guðbjörg Oddný Jónasdóttir, varabæjarfulltrúi og sækist eftir 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. febrúar 2022.

Scroll to Top