Höfum við gengið til góðs götuna fram eftir veg?

Nú þegar rétt þrjú ár eru liðin af kjörtímabilinu er vel við hæfi að líta yfir farinn veg, sjá hvað áorkast hefur í skipulagsmálum og um leið að horfa fram veginn til næstu verkefna og nýrra svæða. Vel hefur gengið að úthluta lóðum í Hafnarfirði á yfirstandandi ári og liðnum árum. Raunar hefur þeim langflestum verið úthlutað eftir að Hamraneslínur voru færðar frá byggð.

Byggingakranar setja svip á Skarðshlíð og Hamranes

Mikil eftirspurn hefur verið eftir lóðum í Skarðshlíð undanfarið og var síðustu lóðunum í því hverfi úthlutað mjög nýlega á fundi bæjarstjórnar. Hverfið sem er í jaðri upplands Hafnarfjarðar í skjólsælum hlíðum á móti suðri verður að okkar mati eitt eftirsóttasta hverfi höfuðborgarsvæðisins innan fárra ára. Annað nýbyggingarsvæði, Hamranes, sem staðsett er á móti Skarðshlíðinni er einnig uppselt. Þar hefur lóðum fyrir um 1600-1900 íbúðum verið úthlutað og mun Bjarg íbúðafélag byggja þar 150 íbúðir. Sérstök áhersla hefur verið lögð á fjölbreyttar íbúðir fyrir alla hópa samfélagsins; unga sem aldna. Auk þess hefur verið gert ráð fyrir uppbyggingu skóla, hjúkrunarheimilis og annarri tengdri starfsemi á svæðinu. Það er því gleðilegt að sjá að byggingakranar séu farnir að setja svip sinn á þessi nýju hverfi og við höfum væntingar til þess að þau muni byggjast upp af skynsemi, hratt og vel.

Lóðir fyrir einbýli í Áslandi 4 og 5

Í Hafnarfirði eru næstu nýbyggingarsvæði samkvæmt svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins og aðalskipulagi Hafnarfjarðar; Hamranes, Ásland 4 og 5 og Vatnshlíð. Vinna við deiliskipulag Áslands 4 og 5 gengur vel, en þar er ráð fyrir góðri blöndu húsnæðis og töluverðu magni af einbýlishúsalóðum. Uppbygging á því svæði ætti að geta hafist innan ekki svo langs tíma, en uppbygging hverfisins í heild mun þó ekki ljúka fyrr en Hnoðraholtslína hefur verið sett í jörð og Hamraneslínur fjarlægðar.

Hraun vestur og meira til

Einnig má hér nefna þá uppbyggingu sem nú fer að hefjast við Hraun vestur – Gjótur, sem er hluti af mjög vænlegu byggingarlandi. Þar er fyrirhuguð byggð, 490 íbúðir auk verslunar- og þjónustuhúsnæðis. Aðal- og deiliskipulag liggur fyrir og gert er ráð fyrir því að framkvæmdir hefjist nú á næstu mánuðum. Þeirri skynsamlegu og kröftugu uppbygginu hafa systurflokkarnir Samfylkingin og Viðreisn ítrekað lagst gegn; lagst gegn uppbyggingu á besta stað við samgönguás Borgarlínunnar.

Hér er væri auk þess hægt að nefna uppbyggingu á þéttingarreitum eins og Hrauntungu, Hjalla- og Hlíðarbraut. Það gengur vel. Því er hægt að segja að við höfum gengið götuna til góðs fram eftir veg. Bæjarbúar eru nú loks farnir að sjá afrakstur mikillar vinnu þessa kjörtímabils og mun sú sýn verða íbúum enn bjartari og skýrari á næstu mánuðum líkt og farið hefur verið yfir hér að ofan. Íbúum mun fjölga og falleg hverfi byggjast upp. Áfram Hafnarfjörður.

Lovísa Björg Traustadóttir, fulltrúi í skipulags- og byggingarráði

Ó. Ingi Tómasson, formaður skipulags- og byggingarráðs

Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður bæjarráðs

 

Scroll to Top