Umgengni á iðnaðar- og athafnasvæðum í Hafnarfirði er mjög misjöfn, víða eru fyrirtæki sem eru til fyrirmyndar í umhirðu lóða þar sem umhverfið er sett í forgang. Þrátt fyrir hvatningu frá Hafnarfjarðarbæ og í sumum tilfellum frá íbúum um tiltekt og betri umgengni eru enn fyrirtæki sem ekki hafa séð ástæðu til að gæta góðrar umgengni á lóðum sínum. Skipulags- og byggingarráð samþykkti að sérstakt hreinsunarátak á iðnaðar- og athafnasvæðum fari fram dagana 18. – 28. september. Í bókun ráðsins segir m.a.: „Hreinsunarátak á iðnaðar- og athafnasvæðum er áskorun til lóðarhafa og atvinnurekenda um að hreinsa allt það sem getur valdið mengun, lýti eða ónæði í umhverfinu. Það er hagur allra að umhverfið sé aðlaðandi, að við öll göngum vel um bæinn og náttúruna, iðnaðar- og athafnasvæðin eru engin undantekning frá því.“
Umhverfið í forgang
Umhverfismál eru forgangsmál. Metnaðarfull Umhverfis- og auðlindastefna Hafnarfjarðar var samþykkt í bæjarstjórn 18. maí 2018, bæjarstjórn samþykkti þann 29. maí 2019 tillögur um vistvænt skipulag. Báðar þessar samþykktir sem eru komnar til framkvæmda fela í sér að umhverfið njóti ávallt forgangs eða eins og segir í inngangi Umhverfis- og auðlindarstefnunni „Markmið umhverfis- og auðlindastefnunnar er að tryggja öllum íbúum Hafnarfjarðar heilnæmt og öruggt umhverfi til lífs, leiks og starfs og skal taka tillit til hennar í allri starfsemi sveitarfélagsins.“ Margir íbúar og fyrirtæki hafa nýtt sumarið til að snyrt sitt nánasta umhverfi og bærinn hefur lagt aukið fjármagn til fegrunar bæjarins. Nú er ákall til þeirra fyrirtækja sem hafa ekki séð ástæðu til að huga að umhverfinu um að gera slíkt. Ávinningurinn er augljós, snyrtilegt umhverfi bætir ímynd bæjarins, íbúum líður betur og bærinn verður eftirsóknarverðari valkostur fyrir rekstraraðila, fjölskyldur og einstaklinga.
Ó. Ingi Tómasson
formaður skipulags- og byggingarráðs