Kristín Thoroddsen tilkynnir framboð til Alþingis

Kæru vinir Nú í haust verður gengið til alþingiskosninga. Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi. Ég trúi því að ég muni gera lista Sjálfstæðisflokksins sterkan fyrir komandi kosningar í haust, lista sem verður að endurspegla þverskurð samfélagsins og samanstendur af breiðum hópi fólks. Okkar bíða krefjandi verkefni og á stefna Sjálfstæðisflokksins erindi nú við sem aldrei fyrr. Til að koma okkur út úr þeim efnahagsþrengingum sem við blasa er mikilvægt að lækka skatta og létta á íþyngjandi reglum og veita þannig fólkinu í landinu svigrúm til frelsis og hlúa að og veita þeim bestu skilyrði til að vaxa og dafna. Við siglum inn í nýtt upphaf þar sem framtíðin er öll okkar og því spennandi viðfangsefni framundan þar sem lausnin felst í einstaklingnum. Með dugnaði landsmanna, skýrri sýn á framtíðina og stefnu flokksins byggjum við aftur upp sterkt samfélag, Ég vil leggja mitt lóð á vogarskálarnar til þess að stefna flokksins verði höfð að leiðarljósi í þeirri vegferð sem framundan er.Þið sem þekkið mig minna þá er ég er 52 ára og er fædd og uppalin í Hafnarfirði. Ég er bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði og formaður fræðsluráðs og hafnarstjórnar, er varaþingmaður fyrir Suðvesturkjördæmi og formaður Sjálfstæðisfélagsins Fram í Hafnarfirði. Ég lauk BA prófi í ferðamálafræði og MBA námi frá Háskóla Íslands árið 2019. Ég hef brennandi áhuga á samfélagsmálum og er óhrædd að takast á við krefjandi áskoranir, breytingar og ný verkefni.Ég tel mikilvægt að í pólitískri forystu í eins stórum flokki og Sjálfstæðisflokkurinn er séu einstaklingar af breiðum hópi fólks. Ég vil því veita kjósendum Sjálfstæðisflokksins val þegar kemur að því að velja á lista fyrir komandi kosningar og leggja það í dóm kjósenda að velja sterkan lista sem gengur samhentur til sigurs. Saman tökumst við á við áskoranir framtíðarinnar og þó við séum ekki alltaf sammála og tökumst á þá er samheldni okkar einkenni og saman gerum við gott samfélag betra.

Scroll to Top