Kristinn Andersen
Verkfræðingur, forseti bæjarstjórnar
Býður sig fram í 2. sæti
Ég gef kost á mér að skipa áfram 2. sæti framboðslista Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi bæjarstjórnarkosningar og tryggja þannig áfram öfluga og samhenta forystu okkar sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Hafnarfjarðar næstu fjögur árin.
Við síðustu bæjarstjórnarkosningar skipaði ég 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins og er forseti bæjarstjórnar og varaformaður bæjarráðs, auk annarra starfa á þeim vettvangi.
Ég lauk doktorsnámi í Bandaríkjunum, hef starfað bæði þar og hérlendis í atvinnulífinu við tækniþróun og nýsköpun um árabil og er núna prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði við Háskóla Íslands. Þá hef ég gegnt formennsku Verkfræðingafélags Íslands, formennsku Íslandsdeildar alþjóðlega verkfræðingafélagsins IEEE og unnið með fjölda nýsköpunarfyrirtækja í störfum mínum. Ég hef starfað innan Sjálfstæðisflokksins um langt árabil, m.a. sem formaður fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Hafnarfirði og í stjórn kjördæmisráðs suðvesturkjördæmis.
Hafnarfjörður hefur vaxið og dafnað á undanförnum árum svo eftir hefur verið tekið. Fjárhagur og stjórnun bæjarfélagsins er traust, mannlífið blómstrar og atvinnulíf er öflugt. Ég legg áherslu á að traustur rekstur og stjórn fjármála bæjarins skili sér í velsæld og hag íbúa og fyrirtækja í Hafnarfirði. Framundan eru spennandi tímar til að fylgja eftir þeim tækifærum sem Hafnarfjörður á. Til þess óska ég áfram eftir góðum og víðtækum stuðningi í 2. sæti framboðslistans okkar.