Hafnarfjörður er gamall bær með lifandi og skemmtilegan bæjarbrag sem endurspeglar það góða fólk sem bæinn byggir. Hafnarfjörður er þekktur fyrir öflugt menningarlíf og er það ekki síst íbúum bæjarins að þakka.
Menning og viðburðir í Hafnarfirði
Sem formaður menningar- og ferðamálanefndar undanfarin fjögur ár hef ég lagt áherslu á það að efla menningu bæjarins, hvetja listamenn til að finna nýjar leiðir til að framkvæma viðburði á tímum Covid og efla hvers kyns afþreyingu í bænum. Hafnfirðingar eru margir heimakærir og því duglegir að sækja viðburði í bænum sem og veitingastaði. Á síðasta kjörtímabili reyndum við að leggja aðal áherslu á upplifun í Hafnarfirði og að í bænum væri fjölbreytt úrval af viðburðum og lifandi menningu sem rúmaðist innan fjöldatakmarkana sem voru í gildi á hverjum tíma.
Það eru forréttindi að eiga skemmtilegan miðbæ og útivistarperlur í sínum heimabæ. Einnig er mikilvægt að geta tekið á móti mörgum innlendum ferðamönnum sem sækja viðburði, bæjarhátíðir, veitingastaði, sundlaugar og verslanir. Þessi smábæjarbragur á Hafnarfirði er mikill auður okkar bæjarbúa. Það eru næg gjaldfrjáls bílastæði í miðbænum og gestir geta því áhyggjulausir staldrað við og notið þess sem bærinn hefur að bjóða. Það er góð og gamaldags orka í miðbænum og endalaus tækifæri til uppbyggingar. Það er í okkar höndum að grípa tækifærin og standa um leið vörð um miðbæinn.
Jólin 2020 þegar það var tíu manna samkomubann greip menningar- og ferðamálnefnd bæjarins tækifærið og lét lýsa upp Hellisgerði og við breyttum lystigarðinum okkar í jólaævintýri. Þetta vakti mikla athygli og fjölmargir nutu þess, bæði Hafnfirðingar og gestir þeirra gátu gengið fallega skreytta garðinn í sinni jólakúlu. Sú skreyting er ein af jákvæðum afleiðingum Covid en sýnir um leið hvað bærinn hefur mikla möguleika. Jólin 2021 var síðan fjárfest í skautasvelli sem opið var samhliða jólaþorpinu og jólaævintýrinu í Hellisgerði.
Stuðningur bæjarins við menningu
Við höfum séð á síðustu átta árum hvað það skiptir miklu máli að meirihlutinn í bæjarstjórn styðji við sköpun og menningu í bænum – gott dæmi eru samningar bæjarins við Bæjarbíó og Gaflaraleikhúsið. Það var mér sannur heiður að fá að vera viðstödd frumsýningu í Gaflaraleikhúsinu laugardaginn 26. mars á leikritinu Langelstur að eilífu. Þrír bæjarlistamenn Hafnarfjarðar tóku þátt í sýningunni sem höfundur, leikari og leikstjóri. Þar af tveir sem fengu nafnbótina á þessu kjörtímabili.
Á síðustu árum höfum við hækkað fjármagn til menningarmála og ég er stolt af því að sjá hversu vel það hefur skilað sér í skemmtilegum bæjarbrag.
Ég trúi á Hafnarfjörð og að við getum gert ennþá betur.
Guðbjörg Oddný Jónasdóttir, varabæjarfulltrúi sem sækist eftir 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. mars 2022