Niðurstöður þjónustukönnunar Gallup sem gerð var í kringum síðastliðin áramót gefa glöggt til kynna að íbúar Hafnarfjarðar eru ánægðir með bæinn sinn og þá þjónustu sem bæjarfélagið veitir. Ánægjan hefur aukist umtalsvert milli ára í öllum þeim 13 þjónustuþáttum sem mældir eru, þar af marktæk hækkun á 12. Þetta sýnir okkur að þau fjölbreyttu verkefni og markvissu framkvæmdir sem við, bæjarfulltrúar og starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar, höfum unnið að síðustu árin eru farin að skila sér í mati og viðhorfi íbúa. Það á jafnt við meðal þeirra sem eru að nýta þjónustuna og þeirra sem upplifa hana í gegnum þriðja aðila.
Barnafjölskyldur aldrei verið ánægðari
Nú í ár erum við að upplifa mestu ánægju frá upphafi Gallup-mælinganna með þjónustu við barnafjölskyldur, þjónustu leikskóla og þjónustu við fatlað fólk auk þess sem þættir eins og þjónusta grunnskóla, gæði umhverfis, sorphirða og menningarmál eru nú á pari við hæstu gildi frá upphafi. Hafnarfjarðarbær er leiðandi sveitarfélag sem hefur kjark til að taka þátt í spennandi tilraunaverkefnum sem eru til þess fallin að efla okkar þjónustu, samræma aðferðir og laga ferla. Þessi framsýni og löngun í gegnsærri, áreiðanlegri og snjallari þjónustu er að skila árangri. Þróunarverkefnið Brúin og tilraunaverkefnið Þorpið eru nærtæk dæmi sem bæði snúa að velferð og eflingu hafnfirskra barna, ungmenna og fjölskyldna þeirra. Starfsumhverfi leik- og grunnskólakennara og nemenda á báðum skólastigum hefur verið í endurskoðun og sífellt er verið að leita leiða til að bæta líðan og árangur nemenda á báðum skólastigum. Innritunaraldur leikskólabarna hefur markvisst verið lækkaður, vistunargjöld ekki hækkað í sjö ár, systkinaafslættir auknir, útsvar og fasteignagjöld lækkað, frístundaakstur efldur, frístundastyrkir auknir og svo mætti áfram telja.
Á réttri vegferð
Á síðastliðnu ári var nýtt ungmennahús opnað, nýtt hjúkrunarheimili á Sólvangi, nýr leikskóli í Skarðshlíð, nýir búsetukjarnar fyrir fatlað fólk og nýjar leiguíbúðir fyrir tekjulægri hafa risið í Skarðshlíð. Lífsgæðasetur St. Jó var opnað eftir endurbætur auk þess sem heilsu- og íþróttabærinn Hafnarfjörður hefur sannarlega stimplað sig inn með auknu samstarfi, innleiðingu heilsueflandi hugmynda, fræðslu og viðburðum. Þessi jákvæða útkoma í þjónustukönnun Gallup gefur okkur byr undir báða vængi. Við erum greinilega á réttri vegferð en vitum á sama tíma að mörg tækifæri til úrbóta blasa við. Þegar er hafin vinna við að greina þá möguleika, meðal annars með skipulags- og áherslubreytingum, heildarstefnumótun og smærri og stærri verkefnum sem öll hafa áhrif.
Höfundur er bæjarstjóri Hafnarfjarðar.