Möguleg sala á eignarhluta Hafnarfjarðar í HS Veitum

Vegna þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað, í kjölfar þess að meirihluti bæjarráðs Hafnarfjarðar samþykkti í liðinni viku að leita tilboða í liðlega 15% hlut sveitarfélagsins í HS Veitum, er rétt að koma eftirfarandi á framfæri.

Verið er að kanna virði eignarhluta bæjarins í HS Veitum og hvort hagstætt sé að selja hann til að milda það högg sem bæjarsjóður Hafnarfjarðar verður fyrir vegna Covid-19-faraldursins. Á þessari stundu lítur út fyrir að tekjufall bæjarins verði ekki undir fimm til sex milljörðum króna á næstu tveimur árum. Þrátt fyrir að áfram verði ýtrasta aðhald í rekstri bæjarins er augljóst að brúa þarf þetta bil. Það verður einungis gert með lántökum og/eða sölu eigna. Öll sveitarfélög í landinu eru í þessari sömu stöðu.

Óþarfar áhyggjur

Ég hef tekið eftir því að sumir íbúar hafa lýst yfir áhyggjum af veitumálum bæjarins vegna þessa. Áhyggjurnar virðast margar byggðar á misskilningi, meðal annars um eðli þjónustu HS Veitna við íbúa Hafnarfjarðar.

Skipta má veitumálum sveitarfélaga í fernt, þ.e. fráveitu, kalt vatn, heitt vatn og rafmagn. Fráveita Hafnarfjarðar annast rekstur fráveitukerfis og hreinsistöðvar bæjarins. Vatnsból Hafnarfjarðar eru í Kaldárbotnum og er rekstur vatnsöflunar og dreifikerfis fyrir kalt vatn í höndum Vatnsveitu Hafnarfjarðar. Þessi fyrirtæki eru í fullri eigu Hafnarfjarðarbæjar og verða það áfram. Öflun á heitu vatni og dreifing í Hafnarfirði er á vegum Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélags þess, Veitna. Við kaup á raforku er Hafnfirðingum að sjálfsögðu frjálst að kaupa af þeim seljanda sem þeir kjósa, eins og annars staðar. Dreifing raforkunnar er hins vegar í höndum HS Veitna sem fær rafmagnið inn á kerfið frá Landsneti.

Eingöngu dreifing raforku

Þjónusta HS Veitna við Hafnfirðinga er því einungis bundin við dreifingu á rafmagni. Þessu er öðruvísi háttað víðast annars staðar á markaðssvæði HS Veitna. Á Suðurnesjum annast HS Veitur alla vatnsöflun, dreifingu og sölu á köldu vatni, dreifingu og sölu á heitu vatni og dreifingu á raforku. Þrátt fyrir það hafa flest sveitarfélög á Suðurnesjum selt hluti sína í HS Veitum og er nú eingöngu Reykjanesbær með umtalsverðan hlut. Vestmannaeyjar njóta einnig víðtækrar þjónustu frá HS Veitum hvað snertir heitt vatn, kalt vatn og raforku. Vestmannaeyjarbær er þó ekki í eigendahópi fyrirtækisins. Sama má segja um nokkur fleiri sveitarfélög sem nýta þjónustu HS Veitna á Suðurlandi og á höfuðborgarsvæðinu.

HS Veitur er vel rekið fyrirtæki sem lagt hefur áherslu á tækniþróun og góða þjónustu við þau sveitarfélög sem það þjónar. Þar skiptir eignarhlutur í fyrirtækinu ekki máli. Í lögum og reglugerðum eru sett afar skýr mörk fyrir rekstri veituþjónustu og á það ekki síst við um raforkudreifingu. Verðskrá er háð arðsemistakmörkunum ákvörðuðum af stjórnvöldum. Sala á eignarhlut Hafnarfjarðar mun því engin áhrif hafa á verðlagningu rafmagns til bæjarbúa.

Verðmætur hlutur

Vísbendingar eru um að verðmæti eignarhlutar Hafnarfjarðar í HS Veitum hafi aukist að verðgildi undanfarin ár, sem meðal annars má rekja til vaxandi raforkudreifingar til nýrra notenda, tækniþróunar og skynsamlegra fjárfestinga. Má telja víst að þrátt fyrir erfitt efnahagsástand séu HS Veitur áhugaverður kostur fyrir langtímafjárfesta, t.d. lífeyrissjóði sem leita að jafnri og stöðugri ávöxtun með takmarkaðri áhættu.

Hafnarfjarðarbær, eins og öll önnur sveitarfélög í landinu, þarf að bregðast við verulega skertum tekjustofnum og kostnaðarauka í kjölfar þessa faraldurs. Það er á ábyrgð stjórnenda bæjarins að kanna allar leiðir í þeim efnum. Endanleg sala er hins vegar ávallt háð því að ásættanlegt verð fáist fyrir hlutinn.

Höfundur er bæjarstjóri Hafnarfjarðar.

Birtist fyrst á mbl.is 30. apríl 2020

Scroll to Top