Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti í gær, miðvikudag, sölu á rúmlega 15% eignarhlut bæjarins í HS Veitum fyrir 3,5 milljarða króna. Andvirði hlutarins styrkir bæjarsjóð Hafnarfjarðar verulega til að mæta því tekjutapi og þeim efnahagslegu þrengingum sem framundan eru vegna Covid-19-faraldursins. Mjög var vandað til sölunnar og er niðurstaða hennar fagnaðarefni fyrir Hafnfirðinga. Gott verð fékkst fyrir hlutinn en að baki kaupunum standa 14 lífeyrissjóðir auk annarra fagfjárfesta.
Víðtækar aðgerðir
Í vor, þegar ljóst var að grípa þyrfti í taumana vegna ófyrirsjáanlegra afleiðinga Covid-19-faraldursins, brugðust stjórnendur í Hafnarfirði hratt við. Áhersla var lögð á að lágmarka áhrifin á bæjarbúa, um leið og leitað var leiða til þess að skjóta frekari stoðum undir fjárhag sveitarfélagsins. Efnahagslegt áfall af þessu tagi kallar ekki á eina töfralausn, heldur þarf að beita víðtækum aðgerðum til þess að draga úr högginu, meðal annars hagræðingu, lántökum og eignasölu.
Hafnarfjörður hefur verið á meðal hluthafa í HS Veitum frá stofnun árið 2008. Fyrirtækið annast sölu og dreifingu á heitu vatni og köldu vatni og dreifingu á raforku á Suðurnesjum og á nokkrum stöðum á Suðurlandi og höfuðborgarsvæðinu. Í Hafnarfirði snýr þjónusta fyrirtækisins einungis að dreifingu á rafmagni.
Fljótt var litið til þess kostar að selja hlut Hafnarfjarðar í HS Veitum enda um áhrifalitla minnihlutaeign að ræða. Á undangengnum uppgangsárum hefur hluturinn aukist talsvert að verðgildi, einkum vegna fólksfjölgunar á Suðurnesjum, rekstrarhagræðingar og tæknivæðingar.
Opið söluferli
Hlutur Hafnarfjarðar í HS Veitum var auglýstur í dagblöðum í maí og fengu um 30 fagfjárfestar gögn um fjárfestinguna. Að afloknu sex mánaða ítarlegu söluferli stóð að lokum eftir fyrirvaralaust tilboð í hlutinn að fjárhæð 3,5 milljarðar króna. Bjóðandi var HSV eignarhaldsfélag sem er um 90% í eigu lífeyrissjóða sem standa að baki yfir helmings lífeyriskerfis landsins.
Hvenær „besti“ tíminn er til þess að selja eignarhlut sem þennan er aldrei hægt að segja til um fyrr en eftir á. Í ljósi söluferilsins og nýlegra viðskipta má þó sjá að í tilboðinu felst mjög gott verð fyrir hlutinn og tækifæri fyrir Hafnarfjörð til þess að leysa til sín verulega virðisaukningu.
Dregur úr vaxtakostnaði
Það er mat meirihlutans í Hafnarfirði að þessum fjármunum bæjarins sé betur varið í þágu bæjarbúa. Hluturinn í HS Veitum hefur engin áhrif á íbúa í Hafnarfirði en verðlagning á raforkudreifingu er bundin ströngum skilyrðum í raforkulögum. Andvirði sölunnar dregur aftur á móti úr lánsfjárþörf Hafnarfjarðar og lækkar þannig afborganir og vexti í framtíðinni. Jafnframt veitir salan Hafnarfjarðarbæ færi á því að sækja fram með hagsmuni bæjarbúa að leiðarljósi og milda þannig höggið vegna Covid-19-faraldursins.
Rósa er bæjarstjóri Hafnarfjarðar og Ágúst Bjarni er formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar.