Skipulag og framkvæmdir

Hamranes, nýjasta byggingarsvæðið í Hafnarfirði kemur í framhaldi af uppbyggingu í Skarðshlíð. Gert er ráð fyrir að á vormánuðum verði búið að úthluta um 600 íbúðum í fjölbýli í Hamranesi og að uppbygging muni hefjast strax á þessu ári. Ásvallabraut sem liggur frá Skarðshlíð að Kaldárselsvegi er komin í útboð og munu framkvæmdir hefjast í vor. Glæsilegur leik- og grunnskóli er risinn í Skarðshlíð og stutt er í náttúruperlu Hafnarfjarðar, upplandið. Frábær valkostur til búsetu fyrir alla.

Uppbygging á öðrum svæðum

Nýverið var samþykkt glæsilegt rammaskipulag fyrir Flensborgarhöfn og Óseyrarsvæði. Svæðið mun byggjast upp sem íbúðar- verslunar- og þjónustusvæði tengist hjarta Hafnarfjarðar, miðbænum okkar. Framundan er áframhaldandi skipulagsvinna sveitarfélagsins og lóðarhafa. Skipulagsvinna við Hraun vestur, fimm mínútna hverfið er í fullum gangi. Hverfið er miðsvæðis með góða tengingu við almenningssamgöngur og mun einnig byggjast upp sem íbúðar- verslunar- og þjónustusvæði. Spennandi verður að sjá þessi svæði byggjast upp.

Reykjanesbrautin

Til að tryggja umferðaröryggi er Það forgangsmál að lokið verði við tvöföldun Reykjanesbrautar sem allra fyrst. Nýlokið er gerð mislægra gatnamóta við Krýsuvíkurveg og unnið er að tvöföldun frá þeim kafla að Kaldárselsvegi, þeim framkvæmdum lýkur á þessu ári. Meirihlutinn í bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefur lagt þunga áherslu á að lokið verði við kaflann frá Krýsuvíkurvegi að Hvassahrauni. Það var því ánægjulegt þegar samgönguráðherra lýsti því yfir að flýta mætti framkvæmdum á þessum kafla um fjögur ár og framkvæmdir gætu hafist árið 2022. Forsenda þess er breyting á aðalskipulagi þar sem Reykjanesbrautin yrði breikkuð í núverandi vegstæði. Í gildandi aðalskipulagi er gert ráð fyrir að Reykjanesbrautin taki stóran sveig upp fyrir Straumsvík sem er mun dýrari kostur en að breikka hana í núverandi vegstæði. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefur samþykkt að fara í þessa aðalskipulagsbreytingu þar sem  Reykjanesbrautin verði áfram í núverandi vegstæði. Sannarlega mörg skemmtileg verkefni framundan í Hafnarfirði.

Ó. Ingi Tómasson, bæjarfulltrúi, formaður skipulags- og byggingarráðs   

Greinin birtist fyrst í Hafnfirðingi 4. mars 2020

Scroll to Top