Trausta forystu í Hafnarfirði

Hafnarfjörður hefur eftirsóknarverða stöðu á höfuðborgarsvæðinu, þar sem við fjörðinn okkar fer saman blómlegt mannlíf, öflug atvinnustarfsemi, menning og einstakur bæjarbragur. Þessum gæðum er mikilvægt að hlúa að áfram og efla.

Undanfarin ár hefur Sjálfstæðisflokkurinn farið með forystu í bæjarstjórn. Sem forseti bæjarstjórnar og varaformaður bæjarráðs hef ég fylgt eftir stefnumálum okkar og greitt götu þeirra fjölmörgu framfaramála sem ég tel mikilvægt að beita mér áfram fyrir á komandi kjörtímabili.

Sterkur fjárhagur

Gríðarleg umskipti hafa orðið til hins betra í fjárhagsstöðu Hafnarfjarðar undanfarin ár. Skuldir bæjarins, sem hlutfall af tekjum, hafa farið jafnt og þétt lækkandi og nú stefnir í að skuldaviðmið Hafnarfjarðar verði það lægsta sem verið hefur um áratuga skeið.

Með markvissri hagræðingu í rekstri bæjarins hefur tekist að halda niðri álögum á íbúa og fyrirtæki. Við höfum lækkað álagningarprósentu fasteignaskatta og unnið þannig gegn hækkandi fasteignamati. Þrátt fyrir vaxandi verðlag hefur náðst að halda gjaldskrám Hafnarfjarðar með lágmarkshækkunum og í sumum tilvikum óbreyttum milli ára. Þá höfum við lagt áherslu á að halda útsvarsálagningu á íbúa bæjarins undir lögbundnu hámarki.

Öflugt atvinnulíf – tækni og verknám

Í Hafnarfirði stendur atvinnulíf styrkum fótum og löng hefð er fyrir öflugri iðn- og tæknistarfsemi. Það er því ánægjulegt að Háskóli Íslands hefur fundið tæknifræðikennslu sinni stað í Hafnarfirði og jafnframt stendur nú fyrir dyrum að Tækniskóli Íslands flytji starfsemi sína í Hafnarfjörð. Tengsl menntunar og atvinnulífs eru mikilvæg og með þeim aukast tækifæri fyrir ungt fólk og samstarf við atvinnulífið.

Bær með hjarta

Í Hafnarfirði er gott að búa. Mikilvægt er að bæjaryfirvöld stuðli áfram að farsæld íbúa og atvinnustarfsemi í bænum, með markvissri uppbyggingu innviða og þjónustu sem skari fram úr og styrkum fjárhag til að fjármagna hana.

Trausta forystu áfram

Sem forseti bæjarstjórnar hef ég beitt mér fyrir að stefnumál okkar ásamt öðrum framfaramálum á vettvangi bæjarstjórnar hafi náð fram að ganga. Í komandi prófkjöri verður val kjósenda að tryggja áfram öfluga forystu okkar í bæjarstjórn til næstu fjögurra ára og þar býð ég áfram fram krafta mína.

Höfundur er forseti bæjarstjórnar í Hafnarfirði
og gefur áfram kost á sér í 2. sæti
í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. mars 2022

Scroll to Top