Uppgangur í Hafnarfirði

Nýverið var birtur ársreikningur Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2020. Í öllum meginatriðum er rekstrarniðurstaða bæjarins mjög jákvæð og hefur fjárhagsstaða bæjarfélagsins ekki verið traustari í áratugi. Agi í fjármálum auk aðhalds og festu í stjórnun bæjarins skilar þessum góða árangri.

Rekstrarafkoma var jákvæð um 2,3 milljarða króna fyrir A- og B-hluta á árinu 2020. Fyrir A-hluta var afkoman jákvæð um 1,6 milljarða króna. Það sem mestu máli skiptir fyrir framtíðarrekstur Hafnarfjarðar er að skuldaviðmið bæjarsjóðs hélt áfram að lækka. Skuldaviðmiðið svokallaða er samræmdur mælikvarði sem settur var upp af ríkinu til að bera saman og meta fjárhagslegt heilbrigði sveitarfélaga, ef svo mætti að orði komast.

Heilbrigðari skuldastaða

Skuldaviðmið Hafnarfjarðarbæjar hefur verið að lækka jafnt og þétt síðastliðinn áratug og var 101% í árslok 2020. Þessa jákvæðu þróun má sjá á súluritinu. Þess má geta að fari skuldaviðmið sveitarfélags yfir 150% kallar það á afskipti og aðhald frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, samkvæmt reglugerð um fjárhagsleg viðmið og eftirlit með fjármálum sveitarfélaga. Því lægra sem skuldaviðmiðið er hjá sveitarfélagi, því meira er afgangs til framkvæmda og til að mæta sveiflum í hagkerfinu.

Hafnarfjörður hefur, líkt og öll önnur sveitarfélög landsins, þurft að glíma við óvænt áföll og óvissu í rekstrinum vegna afleiðinga Covid-19-faraldursins. Við því var brugðist, meðal annars með því að selja 15% hlut bæjarins í HS Veitum. Sú sala var bæði mjög vel heppnuð og tímasett. Afraksturinn styrkir fjárhagslega stöðu Hafnarfjarðarbæjar verulega og má í raun segja að hann verji bæinn að fullu fyrir högginu af heimsfaraldrinum. Þess vegna getur bæjarfélagið haldið áfram að greiða niður lán og byggja upp innviði og viðhaldið háu þjónustustigi við íbúa.

Bjart fram undan

Á síðasta ári og fyrstu mánuði þessa árs hefur eftirspurn eftir lóðum aukist mjög í nýjum hverfum bæjarins. Uppbygging þar er nú í fullum gangi og tilbúnar íbúðir seljast hratt. Kröftug lóðaúthlutun mun skila sér í fjölda nýrra íbúða á næstu mánuðum og misserum og vonandi draga úr þeirri spennu sem er á fasteignamarkaðinum í Hafnarfirði sem og í nágrannasveitarfélögunum. Í framhaldinu mun bæjarbúum fjölga umtalsvert og nýtast þá enn betur þær miklu fjárfestingar sem sveitarfélagið hefur þegar lagt í, til dæmis í uppbyggingu leik- og grunnskóla. Auk lóðaúthlutana í nýjum hverfum er einnig verið að þétta byggð og fjölga þar með valmöguleikum til búsetu í bænum. Uppbyggingin mun skila sér í enn traustari fjárhagsstöðu sveitarfélagsins og gera okkur betur kleift að sækja fram á komandi árum.

Þótt enn sjái ekki fyrir endann á efnahagslegum afleiðingum heimsfaraldursins þá skiptir miklu máli að geta snúið vörn í sókn. Það getum við og það munum við gera í Hafnarfirði.

Höfundur er bæjarstjóri Hafnarfjarðar.

Birtist fyrst á mbl.is 21. apríl 2021

Scroll to Top