Möguleg lausn á mönnunarvanda leikskóla

Leik­skólinn er ekki að­eins mikil­vægur þegar kemur að menntun og þroska barna okkar heldur er hann einnig undir­staða at­vinnu­lífsins. Við höfum sannar­lega lært það á undan­förnum árum hversu mikil­vægur hann er og starfs­fólk leik­skóla flokkað sem fram­línu­starfs­fólk. Mann­ekla vegna veikinda, sótt­kvíar og á­lags leggst þungt á þá sem standa vaktina hverju sinni og loka hefur þurft deildum um allt land. Ekki að­eins hefur Co­vid sett mark sitt á mönnunar­vanda leik­skóla heldur hafa reglu­gerða­breytingar líkt og eitt leyfis­bréf, þar sem leik­skóla­kennurum er heimilt að nýta leyfis­bréf sitt í grunn- og fram­halds­skólum, gert það að verkum að leik­skólinn keppir við grunn­skóla­stigið um hæfa kennara. Þá hefur lengd há­skóla­náms úr þremur árum í fimm haft sitt að segja, braut­skráningum úr leik­skóla­kennara­námi hefur fækkað á sama tíma og börnum hefur fjölgað. Í ofan­á­lag hefur stytting vinnu­vikunnar og breyting á undir­búnings­tímum kallað á fleiri starfs­menn sem ein­fald­lega liggja ekki á lausu. Mönnunar­vandinn er ekki bundinn við eitt sveitar­fé­lag og fæst þeirra hafa náð að upp­fylla lög um leik­skóla þar sem segir að 2/3 starfs­manna séu kennara­menntaðir í hverjum leik­skóla. Við þetta bætist síðan á­kall sam­fé­lagsins um að börn inn­ritist yngri inn í leik­skólana en slíkt kallar á fleiri starfs­menn og ætla má miðað við fjölgun barna að ráða þurfi milli tvö til þrjú hundruð starfs­menn til við­bótar, það er ef sveitar­fé­lög ætla að svara kalli ríkisins um að brúa bilið milli fæðingar­or­lofs og leik­skóla. Sveitar­fé­lög hafa þurft að bíða með inn­ritun, ekki vegna skorts á plássum eða fjár­magni, heldur skorts á kennurum. Vandinn er því marg­þættur sem ljóst er að leysa þarf í sátt við starfs­fólk, fé­lags leik­skóla­kennara, sveitar­fé­lögin og ríkis­valdið.

Þjónusta eða menntun?

Leik­skólinn er fyrsta stig skóla­kerfisins eins og segir í aðal­nám­skrá leik­skóla, þar sem efla á al­hliða þroska og menntun allra barna. Í mínum huga leikur enginn vafi á því að í leik­skólum er veitt menntun og að hún sé sniðin að þörfum hvers barns. Enginn vafi leikur heldur á því að grunn­skólinn er mennta­stofnun. En grunn­skólinn gerir meira en það, hann sér til þess að ung börn hafi að­gang að frí­stund eftir að menntun barnanna líkur á degi hverjum, í jóla- og páska­fríum og á sumrin er frí­stund grunn­skólans opin fyrir ung börn. Það má því segja að grunn­skólinn sé bæði mennta- og þjónustu­stofnun. En af hverju erum við alltaf að reyna að skil­greina leik­skólann í aðra hvora áttina? Í mínum huga er leik­skólinn bæði, hann menntar börnin okkar og þjónustar um leið þá for­eldra sem þurfa, líkt og grunn­skólinn.

Færum leik­skóla nær grunn­skóla

Ljóst að leik­skólinn er mikil­vægur hlekkur þegar kemur að því að halda sam­fé­laginu gangandi, án hans hefðu margir ekki mögu­leika á að sinna vinnu sinni og án hans væru börnin okkar ekki eins vel búin undir næsta skóla­stig. Í dag vantar um 1.800 leik­skóla­kennara til að leik­skólar landsins séu mannaðir með 2/3 kennurum og án ó­fag­lærðra starfs­manna væri fjöldi leik­skóla á landinu lokaður. En hefur skipu­lag leik­skólanna fengið að þróast í takt við sam­fé­lagið á sama hátt og grunn­skólinn? Ljóst hefur verið til nokkurra ára að nú­verandi kerfi gengur ekki upp, hvorki mönnunar­lega séð né rekstrar­lega fyrir sveitar­fé­lögin. Því kalla ég á lausnir. Ein lausn gæti verið sú að færa leik­skólann nær skipu­lagi grunn­skólanna þar sem horft er til 6 tíma skóla­starfs á dag í 9 mánuði á ári, en ekki í 11 mánuði á ári, 9 tíma á dag eins og krafa er nú um, sú krafa er ó­raun­hæf og alls ekki í takt við þróun sam­fé­lagsins og kröfu kennara eða for­eldra. En ef slík breyting á að eiga sér stað þarf að endur­skoða þá þætti sem snúa að skipu­lagi og aðal­nám­skrá leik­skólanna þar sem blandað er saman námi og frí­stund.

Lík­legt er að sú kerfis­breyting myndi auka á starfs­á­nægju kennara, stytting vinnu­vikunnar gengi upp, mögu­leikar væru á auknum sveigjan­leika og leik­skóla­kennurum myndu fjölga. Þannig myndum við færa leik­skólann nær grunn­skólanum og inn í nú­tíma­sam­fé­lag þar sem sam­fella er milli allra skóla­stiga þegar kemur að starfs­mönnum og menntun barna okkar. Þannig náum við að inn­rita yngri börn og skapa meiri sátt meðal starfs­manna óháð skóla­stiga og af­stýra mönnunar­vanda leik­skólanna


Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 22. febrúar 2022

Scroll to Top