Suðurbæjarlaug hefur notið mikilla vinsælda frá fyrsta degi, en hún var var formlega tekin í notkun þann 28. október 1989. Hönnuður sundlaugarinnar er Sigurþór Aðalsteinsson, arkitekt og laugin er fyrsta útisundlaugin í Hafnarfirði. Fjöldi fastagesta, á öllum aldri, nýtur þess allt árið um kring að mannvirkið var hannað í upphafi af vandvirkni og framsýni ásamt því að stór garður með mikið af sígrænum trjám umlykur sundlaugarsvæðið og veitir skjól allt árið um kring.
Vaðlaug fyrir yngstu börnin og aðgengis- og öryggismál
Eitt af kosningaloforðum Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði fyrir síðustu kosningar var að hefja endurbætur á Suðurbæjarlaug og sú vinna er í gangi. Hreinsikerfi laugarinnar hefur verið skipt út fyrir kerfi sem styður við umhverfisvænar lausnir og á síðasta ári var allt þakvirki endurbyggt ásamt því að gufuklefar karla og kvenna hafa verið endurnýjaðir. Næstu skref í endurbótum á þessu ári verða öryggismálin en þörf er á að byggja upphækkað öryggisbúr og aðgengismál verða bætt með rafrænum opnunum. Í sumar er jafnframt fyrirhugað að bæta við vaðlaug og leiksvæði með mjúku undirlagi fyrir yngstu gesti laugarinnar og hefja hönnun á nýju húsi fyrir vatnsgufu með tilheyrandi sturtum og hvíldaraðstöðu ásamt því að bæta aðstöðu við kalda potta.
Suðurbæjarlaug er komin á fertugsaldurinn og því tímabært að huga að frekari endurbótum og nýjungum til að sundlaugin geti áfram sinnt hlutverki sínu fyrir þann stóra hóp Hafnfirðinga á öllum aldri sem stundar sund sér til heilsubótar. Svæðið umhverfis sundlaugina býður uppá mikla möguleika og verður því áfram unnið að því að gera endurbætur á sundlaugarsvæðinu og nágrenni þess þannig að sundlaugin geti sinnt hlutverki sínu í heilsubænum Hafnarfirði.
Helga Ingólfsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður Umhverfis- og framkvæmdaráðs
Kristín Thoroddsen, bæjarfulltrúi og formaður Fræðsluráðs