Hafnarfjörður tækifæranna

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði fer fram nú 3.-5. mars. Ég hvet alla Sjálfstæðismenn til að taka þátt í prófkjörinu og stilla þannig upp sigurstranglegum lista. Ánægjulegt er að sjá hve hæfileikaríkur og fjölbreyttur hópur fólks býður sig fram í prófkjörinu og er tilbúið til að virkja krafta sína í þágu bæjarins.

Ég býð mig fram í fyrsta sæti listans og vil áfram leggja mitt af mörkum til að efla og styrkja bæjarfélagið.  Mitt markmið er að gera Hafnarfjörð að best rekna sveitarfélaginu á höfuðborgarsvæðinu. Við höfum undanfarin átta ár lyft grettistaki í fjármálum bæjarins og ætlum okkur að halda áfram á þeirri braut. Þótt bæjarfélagið sé enn mjög skuldsett er ánægjulegt að sjá hve skuldaviðmið og skuldahlutfall bæjarins hefur farið lækkandi með hverju árinu þannig að nú stenst Hafnarfjörður samanburð við flest sveitarfélög. Þessi staða er þó viðkvæm því lítið má út af bregða til að fjármálin og skuldastaðan snúist í aðra átt og eru kosningarnar í vor því sérstaklega mikilvægar fyrir Hafnfirðinga.

Mikil gróska er nú í sveitarfélaginu hvert sem litið er. Miðað við þá íbúðauppbyggingu sem nú er í fullum gangi og framundan er, bæði í nýjum hverfum og á þéttingarreitum, er gert ráð fyrir að Hafnfirðingum fjölgi um 7.500 manns næstu fjögur árin. Þá flykkjast fyrirtæki til Hafnarfjarðar og hefur lóðasala til þeirra margfaldast undanfarin ár. Ætla má að uppbygging á atvinnusvæðunu geti skapað á annað þúsund störf í bænum á næstu misserum og munar um minna. Allt er þetta afrakstur stefnu núverandi meirihluta í bæjarstjórn og vil ég halda áfram á þessari braut.

Með því að reka bæjarfélagið af ábyrgð, hefur verið hægt að lækka álögur og gjöld á sama tíma. Jafnframt hefur bæjarfélagið stutt myndarlega við heilsueflingu og íþróttastarf, byggt upp og eflt þjónustu við eldri borgara og þá sem þurfa á félagslegri aðstoð að halda, eflt menningu og mannlíf bæjarins svo eftir er tekið. Er þá fátt eitt talið.

Blómstrandi mannlíf og skýr framtíðarsýn

Bærinn hefur haft einstakt aðdráttarafl undanfarin ár; miðbærinn blómstrað sem aldrei fyrr og spennandi uppbygging sem hefst þar í vor mun efla miðbæjarlífið enn frekar. Undirbúningur fyrir komu Tækniskólans og að nýju skipulagi og uppbyggingu á höfninni stendur sem hæst og mun styrkja samfélagið okkar gríðarlega. 

Á þessari braut viljum við Sjálfstæðismenn halda áfram en fyrst og fremst viljum við halda áfram að reka bæinn á skynsamlegan hátt og með virðingu fyrir fjármunum skattgreiðenda. Til þess þurfum við öflugan stuðning til að verða í forystu við myndun næsta meirihluta í bæjarstjórn Hafnarfjarðar.

Mér hefur verið falið að leiða lista okkar Sjálfstæðismanna undanfarin tvö kjörtímabil. Innan flokksins hefur samstarfið gengið afar vel og það hefur skilað sér í góðum árangri fyrir Hafnarfjörð og Hafnfirðinga. Ég óska eftir góðu umboði til að halda áfram því forystuhlutverki sem ég hef gegnt undanfarin ár. Ég óska því eftir stuðningi þínum í fyrsta sæti listans.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. mars 2022

Scroll to Top