Leikskólinn er ekki aðeins mikilvægur þegar kemur að menntun og þroska barna okkar heldur er hann einnig undirstaða atvinnulífsins. Við höfum sannarlega lært það á undanförnum árum hversu mikilvægur hann er og starfsfólk leikskóla flokkað sem framlínustarfsfólk. Mannekla vegna veikinda, sóttkvíar og álags leggst þungt á þá sem standa vaktina hverju sinni og loka hefur þurft deildum um allt land. Ekki aðeins hefur Covid sett mark sitt á mönnunarvanda leikskóla heldur hafa reglugerðabreytingar líkt og eitt leyfisbréf, þar sem leikskólakennurum er heimilt að nýta leyfisbréf sitt í grunn- og framhaldsskólum, gert það að verkum að leikskólinn keppir við grunnskólastigið um hæfa kennara. Þá hefur lengd háskólanáms úr þremur árum í fimm haft sitt að segja, brautskráningum úr leikskólakennaranámi hefur fækkað á sama tíma og börnum hefur fjölgað. Í ofanálag hefur stytting vinnuvikunnar og breyting á undirbúningstímum kallað á fleiri starfsmenn sem einfaldlega liggja ekki á lausu. Mönnunarvandinn er ekki bundinn við eitt sveitarfélag og fæst þeirra hafa náð að uppfylla lög um leikskóla þar sem segir að 2/3 starfsmanna séu kennaramenntaðir í hverjum leikskóla. Við þetta bætist síðan ákall samfélagsins um að börn innritist yngri inn í leikskólana en slíkt kallar á fleiri starfsmenn og ætla má miðað við fjölgun barna að ráða þurfi milli tvö til þrjú hundruð starfsmenn til viðbótar, það er ef sveitarfélög ætla að svara kalli ríkisins um að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Sveitarfélög hafa þurft að bíða með innritun, ekki vegna skorts á plássum eða fjármagni, heldur skorts á kennurum. Vandinn er því margþættur sem ljóst er að leysa þarf í sátt við starfsfólk, félags leikskólakennara, sveitarfélögin og ríkisvaldið.
Þjónusta eða menntun?
Leikskólinn er fyrsta stig skólakerfisins eins og segir í aðalnámskrá leikskóla, þar sem efla á alhliða þroska og menntun allra barna. Í mínum huga leikur enginn vafi á því að í leikskólum er veitt menntun og að hún sé sniðin að þörfum hvers barns. Enginn vafi leikur heldur á því að grunnskólinn er menntastofnun. En grunnskólinn gerir meira en það, hann sér til þess að ung börn hafi aðgang að frístund eftir að menntun barnanna líkur á degi hverjum, í jóla- og páskafríum og á sumrin er frístund grunnskólans opin fyrir ung börn. Það má því segja að grunnskólinn sé bæði mennta- og þjónustustofnun. En af hverju erum við alltaf að reyna að skilgreina leikskólann í aðra hvora áttina? Í mínum huga er leikskólinn bæði, hann menntar börnin okkar og þjónustar um leið þá foreldra sem þurfa, líkt og grunnskólinn.
Færum leikskóla nær grunnskóla
Ljóst að leikskólinn er mikilvægur hlekkur þegar kemur að því að halda samfélaginu gangandi, án hans hefðu margir ekki möguleika á að sinna vinnu sinni og án hans væru börnin okkar ekki eins vel búin undir næsta skólastig. Í dag vantar um 1.800 leikskólakennara til að leikskólar landsins séu mannaðir með 2/3 kennurum og án ófaglærðra starfsmanna væri fjöldi leikskóla á landinu lokaður. En hefur skipulag leikskólanna fengið að þróast í takt við samfélagið á sama hátt og grunnskólinn? Ljóst hefur verið til nokkurra ára að núverandi kerfi gengur ekki upp, hvorki mönnunarlega séð né rekstrarlega fyrir sveitarfélögin. Því kalla ég á lausnir. Ein lausn gæti verið sú að færa leikskólann nær skipulagi grunnskólanna þar sem horft er til 6 tíma skólastarfs á dag í 9 mánuði á ári, en ekki í 11 mánuði á ári, 9 tíma á dag eins og krafa er nú um, sú krafa er óraunhæf og alls ekki í takt við þróun samfélagsins og kröfu kennara eða foreldra. En ef slík breyting á að eiga sér stað þarf að endurskoða þá þætti sem snúa að skipulagi og aðalnámskrá leikskólanna þar sem blandað er saman námi og frístund.
Líklegt er að sú kerfisbreyting myndi auka á starfsánægju kennara, stytting vinnuvikunnar gengi upp, möguleikar væru á auknum sveigjanleika og leikskólakennurum myndu fjölga. Þannig myndum við færa leikskólann nær grunnskólanum og inn í nútímasamfélag þar sem samfella er milli allra skólastiga þegar kemur að starfsmönnum og menntun barna okkar. Þannig náum við að innrita yngri börn og skapa meiri sátt meðal starfsmanna óháð skólastiga og afstýra mönnunarvanda leikskólanna
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 22. febrúar 2022