Prófkjör

Guðbjörg Oddný Jónasdóttir

Guðbjörg Oddný Jónasdóttir

Varabæjarfulltrúi og varaþingmaður
Býður sig fram í 3. sæti

Ég heiti Guðbjörg Oddný Jónasdóttir og er bæði varabæjarfulltrúi og varaþingmaður ásamt því að starfa sem samskiptastjóri og aðstoðarmaður framkvæmdastjóra hjá Benchmark Genetics. Ég sækist eftir 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði fyrir kosningarnar í maí.

Ég vil hafa fast sæti í bæjarstjórn okkar Hafnfirðinga þar sem ég get haft áhrif og mótað framtíð bæjarins með mínum hugsjónum og áherslum.

Ég er uppalin í Hafnarfirði, fædd 5. febrúar 1985 og bý ásamt eiginmanni mínum Gísla Má Gíslasyni, hagfræðingi og börnunum okkar þrem, Gabríelu (7 ára), Gísla (4 ára) og Garpi (2 ára) í vesturbæ Hafnarfjarðar.

Ég lauk MA gráðu í alþjóðasamskiptum frá Háskóla Íslands 2011 og BA gráðu í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði frá Háskólanum á Bifröst árið 2008. Ég lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík.

Ég skipaði 6. sæti á lista flokksins í kosningunum árið 2018 . Ég hef starfað sem formaður menningar- og ferðamálanefndar ásamt því að vera aðalfulltrúi bæði í fjölskylduráði og fræðsluráði. Ég hef einnig starfað í hinum ýmsu starfshópum og er fulltrúi bæjarins í stjórn Markaðsstofu Hafnarfjarðar.

Ég hef sinnt margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn síðustu 12 ár og hef setið í stjórn Stefnis, félags ungra Sjálfstæðismanna í Hafnarfirði og stjórn Fram, Sjálfstæðisfélags Hafnarfjarðar, sem varaformaður. Ég sit núna í stjórn fulltrúaráðsins í Hafnarfirði og í framkvæmdastjórn Landssambands Sjálfstæðiskvenna.