Núna þegar mælt er með því að við ferðumst innanlands og njótum fallega landsins okkar í sumar þá er tilvalið að við kynnumst Hafnarfirði ennþá betur. Við sem Hafnfirðingar þurfum ekki að sækja vatnið yfir lækinn. Hér er nóg að gera fyrir alla – unga sem aldna bæði úti og inni. Það er hægt að njóta útivistar á til dæmis við Hvaleyrarvatn, ganga á Helgafell, skoða náttúruna í Krýsuvík eða taka göngutúr í Hellisgerði. Hægt er að ganga Strandstíginn hérna innanbæjar og einnig eru gönguleiðirnar óteljandi í upplöndum Hafnarfjarðar sem og i Krýsuvík. Hægt er að fara i sund, göngu eða hjólatúr eða fara í fría ferð á söfnin. Ærslabelgirnir orðnir tveir og nóg af leikvöllum um allan bæ.
Mikilvægt er að við skiptum við kaupmenn og veitingastaði í heimabyggð – og bjóðum með okkur gestum. Þannig styðjum við öflugan og fjölbreyttan bæ okkur öllum til hagsbóta.
Hér í bænum eru mikið af metnaðarfullum veitingastöðum og bestu bakaríin – snúðarnir maður minn! Það er ekki síst okkur sjálfum að þakka að hérna þrífist gott úrval af þjónustu því við erum dugleg að versla í heimabyggð – höldum þvi þannig.
Verum heimakær í sumar – bjóðum til okkar gestum og heimsækjum Hafnarfjörð!
Guðbjörg Oddný Jónasdóttir, varabæjarfulltrúi og formaður Menningar- og ferðamálanefndar